Fréttir
Gígjukvísl
Mynd 1. Grímsvatnahlaupið (stækkanleg mynd).

Grímsvatnahlaupi að ljúka

Þorsteinn Þorsteinsson

5.11.2010

Hlaupinu úr Grímsvötnum er nú að ljúka. Fylgst hefur verið með framvindunni í sérstakri grein og þar má skoða myndir teknar úr flugi.

Rennslið náði hámarki um miðjan dag 3. nóvember og könnuðu starfsmenn Veðurstofu Íslands aðstæður við Gígjukvísl og Skeiðarárjökul um það leyti. Tveir menn hafa verið við rennslismælingar á brúnni yfir Gígjukvísl undanfarna daga (mynd 1) og eru niðurstöður þeirra mælinga sýndar á mynd 2.

Leiðnimælingar og skráning vatnshæðar benda til að hlaupvatn hafi verið komið í Gígjukvísl fimmtudaginn 28. október. Hlaupferillinn á mynd 2 (níu stakar rennslismælingar) er dæmigerður fyrir þau hlaup úr Grímsvötnum, sem ekki orsakast af eldsumbrotum: Rennslið eykst stöðugt á nokkrum dögum þegar ísgöng við jökulbotninn, sem hlaupvatnið streymir um, stækka í sífellu vegna ísbráðnunar við veggi gangnanna.

Mynd 2. Rennsli (m3/s): Út frá ferlinum er heildarrúmmál hlaupvatns áætlað 0,45 km3.

Rúmmál lónsins undir íshellu Grímsvatna var áætlað 0,7 km3 við upphaf hlaups og hámarksrennsli í hlaupinu mældist rúmlega 2600 m3/s. Heildarrúmmál vatns sem fram kom í Gígjukvísl mældist um 0,45 km3 og telst hlaupið því í minna lagi miðað við fyrri Grímsvatnahlaup. Ljóst virðist að nokkuð vatn hafi verið eftir í Grímsvötnum þegar ísgöngin lokuðust og hlaupinu lauk og er það ekki óalgengt.

Á umliðnum öldum hafa flest Grímsvatnahlaup fallið í farveg Skeiðarár. Nú leitaði sá hluti hlaupvatnsins, sem kom undan austanverðum jöklinum, í fyrsta sinn til vesturs meðfram jökuljaðrinum yfir í farveg Gígjukvíslar og ekkert vatn fór undir Skeiðarárbrú. Skeiðará hefur hlaðið seti í farveg sinn um langan aldur og jökullinn grafið sig niður og var því ljóst að vatnið mundi fyrr eða síðar taka að leita til vesturs frá útfallinu í kjölfar stöðugrar hörfunar jökulsins á sl. 15 árum.

Þann 3. nóvember rann hlaupvatnið í nokkuð stríðum straumi meðfram jökulröndinni (sjá myndir 3 og 4). Á tveimur stöðum hvarf vatnið undir jökultungur sem liggja að sandinum en kom aftur fram neðan þeirra. Ekki voru sjáanleg mikil merki umbrota, en greinilegt var að hlaupið hafði rofið malarbakkann sunnan farvegarins og þar þarf að fara að öllu með gát vegna hrunhættu.

Meðfram Skeiðarárjökli
Mynd 3. Hlaupvatnið streymir vestur með jaðri Skeiðarárjökuls. Ljósmynd: Þorsteinn Þorsteinsson.
Nýi farvegurinn
Mynd 4. Horft yfir hlaupvatnið í átt að Skaftafellsfjöllum. Til vinstri sést í allstóran setbunka og má greina framhald hans til hægri. Vatnið, sem áður rann í farvegi Skeiðarár, rauf skarð í setbunkann sumarið 2009 og tók þá að falla í þessum nýja farvegi vestur í Gígjukvísl. Ljósmynd: Þorsteinn Þorsteinsson.

Uppstreymi vatns undan jökli virtist mest á þeim stað, sem sýndur er á mynd 5 og þar var hiti hlaupvatnsins mældur með nákvæmum hitamæli (mynd 6). Líklegt er að hiti lónvatnsins í Grímsvötnum sé nærri frostmarki við upphaf hlaups. Umtalsverð stöðuorka losnar og breytist í varma við rennsli hlaupvatnsins á 50 km ferðalagi þess undir jöklinum niður á Skeiðarársand. Mælingin við útfall Grímsvatnahlaupsins gaf niðurstöðuna -0,025°C ± 0,006°C (þ.e. rétt við frostmark) og má því álykta að varmaorkan í rennslinu eyðist öll í að bræða ísgöngin undir jökli.

Sýni voru tekin af hlaupvatninu og verður efnasamsetning þess rannsökuð á Jarðvísindastofnun Háskólans.

Útfallið
Mynd 5. Útfall jökulhlaupsins. Vatn streymdi þarna undan jöklinum af talsverðum krafti en greinilega kom vatn upp við jökuljaðar á fleiri stöðum, svo sem í Súlu. Myndin er tekin kl. 15:40 þann 3. nóvember og má á aurugum ísveggnum sjá greinileg merki hærra vatnsborðs við hámark hlaupsins 2-3 klst fyrr. Tveir menn standa á jöklinum. Ljósmynd: Þorsteinn Þorsteinsson.
Hitamæling við útfallið
Mynd 6. Hitamæling við útfallið. Sá sem mælinguna framkvæmir er tryggður með öryggislínu og slakar nákvæmnismæli niður í vatnið. Vatnshitinn er skráður í minni mælisins og síðan lesinn úr honum í tölvu. Sýni voru einnig tekin til að kanna hvort ísnálar væru í hlaupvatninu. Þær geta myndast er hlaupvatn streymir hratt upp undan jökli og undirkæling verður þegar þrýstingur minnkar hratt. Ekki varð vart við slíka ísmyndun á þessum stað. Ljósmynd: Þorsteinn Þorsteinsson.
Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica