Jarðskjálftar á Íslandi í september 2010
Rúmlega 1100 jarðskjálftar mældust með SIL-mælakerfi Veðurstofunnar í september. Stærsti skjálfti vikunnar varð við Hamarinn í Vatnajökli og var hann 3,7 stig. Fleiri skjálftar í Vatnajökli voru rúmlega þrír að stærð og einnig varð svo stór skjálfti í Tjörnesbrotabeltinu.
Á Reykjanesskaga var virknin mest við Krýsuvík, en stærsti skjálftinn á skaganum varð að kvöldi 8. september skammt vestan við Þorbjarnarfell, 2,3 stig. Hann fannst vel í Grindavík. Á Reykjaneshrygg mældust nokkrir skjálftar, sá stærsti 2,2 stig. Þeir voru um eða innan við 50 kílómetra frá landi.
Á Hengilssvæðinu mældist mest við Húsmúla, eða um 30 skjálftar, sem urðu vegna niðurdælingar við Hellisheiðarvirkjun. Í Ölfusi urðu dreifðir smáskjálftar, nokkrir í grennd við Raufarhólshelli, þar sem sá stærsti var 2,2 stig, og einnig á Krosssprungunni. Á Suðurlandsundirlendinu voru allir skjálftar smáir, og nokkrir mældust sunnan við og í sunnanverðum Langjökli. Þá mældist skjálfti vestan við Heimaey, var hann 2,7 stig að stærð.
Árstíðabundin haustvirkni í Mýrdalsjökli var í vestanverðum jöklinum. Vel á annað hundrað skjálftar voru staðsettir, en þeir stærstu voru 2,4 stig. Örfáir smáskjálftar mældust í Eyjafjallajökli.
Nálægt 250 jarðskjálftar mældust undir Vatnajökli. Mest var virknin undir Bárðarbungu og við Kistufell. Nokkur virkni var einnig við Hamarinn, einkum síðari hluta mánaðarins. Laugardaginn 25. september kl. 23:36 varð þar jarðskjálfti að stærð 3,7 og fyrr um kvöldið kl. 21:11 varð skjálfti að stærð 3,5 á sama stað. Um 34 eftirskjálftar fylgdu í kjölfarið fram á sunnudag. Stærstu skjálftarnir fundust á Búlandi efst í Skaftártungu. Rúmlega 20 skjálftar mældust við Grímsvötn og var stærsti skjálftinn um tvö stig. Um 80 skjálftar mældust á svæðinu norðan Vatnajökuls og voru þeir nokkuð dreifðir. Á Kröflu- og Þeistareykjasvæðum mældust smáskjálftar af og til allan mánuðinn.
Rúmlega 300 jarðskjálftar mældust Í Tjörnesbrotabeltinu í mánuðinum. Skjálftaruna hófst föstudaginn 17. september 5-10 kílómetrum norðnorðaustan Mánáreyja og stóð hún fram yfir helgina. Stærsti skjálftinn mældist 3,5 stig. Vikuna á eftir varð skjálftahrina við Hólinn sem er milli Grímseyjar og Kolbeinseyjar og var stærsti skjálftinn 3,1 stig. Um 100 skjálftar mældust í nágrenni Grímseyjar, mest um miðbik mánaðarins.