Fréttir
speglun við vatn
Úr Álftavatnskróki.

Tíðarfar í ágúst 2010

Stutt tíðarfarsyfirlit

1.9.2010

Hlýtt var í ágúst. Um vestan- og suðvestanvert landið var hann einn af fimm hlýjustu mánuðum frá upphafi mælinga en í öðrum landshlutum var heldur svalara að tiltölu, svalast á Austfjörðum. Hiti var þó alls staðar yfir meðallagi.

Þurrt var sums staðar um landið norðvestan- og vestanvert en fremur úrkomusamt víða annars staðar.

Hiti

Meðalhitinn í Reykjavík var 12,1 stig, 1,8 stigi yfir meðallagi. Þetta er fjórði til fimmti hæsti mánaðarmeðalhiti í ágúst í Reykjavík, heldur hlýrra var árin 2003, 2004 og 1880. Ágúst 1950 var jafnhlýr og nú. Munur á ágúst 1939 og nú er ómarktækur. Samfelldar mælingar hófust 1871.

Á Akureyri mældist meðalhiti 11,5 stig og er það 1,5 stigi yfir meðallagi. Ágúst varð hlýjasti sumarmánuðurinn á Akureyri. Á Höfn í Hornafirði var meðalhitinn 11,2 stig, eða 1,1 stigi yfir meðallagi. Meðalhiti á Hveravöllum var 8,0 stig, 1,8 stigi yfir meðallagi.

Meðalhita á fleiri stöðvum má sjá í töflu:

stöð hiti vik röð af
Reykjavík 12,1 1,8 5 140
Stykkishólmur 11,7 2,1 5 165
Bolungarvík 10,8 2,1 8 til 9 113
Akureyri 11,5 1,4 18 128
Egilsstaðir 10,2 0,6 26 61
Dalatangi 8,7 0,4 34 72
Höfn í Hornaf. 11,2 1,1
Stórhöfði 11,4 1,8 5 134
Hveravellir 8,0 1,8 6 45


Hæsti meðalhiti mánaðarins á landinu var 12,3 stig á Garðskagavita en lægstur var meðalhitinn 3,0 stig á Brúarjökli.

Hæsti hiti í mánuðinum mældist í Skaftafelli 23,0 stig þann 12. Hæstur hiti á mannaðri stöð mældist 21,8 stig á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði þann 15.

Lægsti hiti mánaðarins mældist -3,7 stig í Möðrudal þann 29. Lægstur hiti á mannaðri stöð mældist -3,0 stig á Staðarhóli í Aðaldal, einnig þann 29.

Úrkoma

Þurrt var um landið norðvestanvert, allt suður á höfuðborgarsvæðið og norður í Húnavatnssýslur. Þurrkanna gætti í ám og vatnsbólum þannig að til vandræða varð á stöku stað. Meira rigndi í öðrum landshlutum; úrkoma á Stórhöfða í Vestmannaeyjum var til dæmis 201 mm, það mesta í ágúst síðan 1998.

Úrkoman í Reykjavík mældist 54,9 mm og er það 89% af meðallagi. Á Akureyri mældist úrkoman 58,1 mm. Það er 70% umfram meðallag. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 34,3 mm og er það 66% meðalúrkomu.

Sólskinsstundir

Sólskinsstundir mældust 196,5 í Reykjavík og er það 41 stund umfram meðallag, en nokkru færri en í ágúst í fyrra. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 103,8 og er það 32 stundum undir meðallagi. Í ágúst í fyrra voru sólskinsstundirnar enn færri á Akureyri.

Loftþrýstingur og vindhraði

Loftþýstingur í júlí var hár, 3,7 hPa yfir meðallagi í Reykjavík. Vindhraði var lítillega undir meðallagi.



Héðinsfjarðarvatn
SvBr_0300
Við Héðinsfjarðarvatn hinn 15. ágúst 2010. Ljósmynd: Sveinn Brynjólfsson.

Júní til ágúst

Í Reykjavík er meðalhiti mánaðanna júní til ágúst saman sá hæsti sem vitað er um frá upphafi samfelldra mælinga 1871, eða 12,2 stig. Sú óvissa, sem flutningar stöðvarinnar milli staða í bænum skapar, er minni en svo að hún raski þessari niðurstöðu. Litlu munar þó á sumrinu í ár og þeim sumrum sem eru nærri því eins hlý. Meðalhiti þessara mánaða árið 2003 var 12,1 stig og 1939 var hitinn ómarktækt lægri. Meðalhitinn í júní til ágúst í Stykkishólmi nú er 11,5 stig, 0,3 stigum hærri en hlýjasta sumarið til þessa, árið 2003. Mælingar eru samfelldar frá 1845. Júní til ágúst samanlagðir eru einnig þeir hlýjustu sem mælst hafa í Vestmannaeyjum, 10,9 stig, sami meðalhiti var sömu mánuði árið 2003. Í Vestmannaeyjum hefur verið mælt samfellt frá 1877. Á Hveravöllum var sumarið 2003 lítillega hlýrra en nú. Á Akureyri voru júní til ágúst nú í 12. hlýjasta sæti frá upphafi samfelldra mælinga, 1 stigi kaldari heldur en metárið 1933.

Samkvæmt skilgreiningu Veðurstofunnar er sumarið fjórir mánuðir, september telst einnig með. Árin 1939 og 1941 var september fádæma hlýr bæði árin og verður barátta sumarsins í ár um fyrsta sætið mjög erfið þegar september bætist inn í sumarmeðaltalið. Spennandi verður að fylgjast með því.

Mjög þurrt var um norðvestanvert landið í júní til ágúst, þó var þurrara í Reykjavík á sama tíma í fyrra. Í Stykkishólmi hefur þessi tími ekki verið þurrari síðan 1952.

Sólskinsstundir í júní til ágúst eru 83 fleiri en í meðalári í Reykjavík. Þetta eru þó ívið færri sólskinsstundir en í sömu mánuðum undanfarin ár. Á Akureyri mældust sólskinsstundir 22 fleiri en í meðalári. 

Fyrstu 8 mánuðir ársins

Fyrstu átta mánuðir ársins hafa aðeins þrisvar orðið marktækt hlýrri í Reykjavík heldur en nú. Það var 1929 (vetrarhlýindi), 1964 (vetrarhlýindi) og 2003 (allir mánuðir hlýir nema maí). Munur á árinu í ár og 1939 er ómarktækur. Í Stykkishólmi eru fyrstu 8 mánuðir ársins nú þeir hlýjustu frá upphafi mælinga 1845. Litlu munar þó á fáeinum árum og spennandi að sjá hverning afgangur ársins stendur sig í þessu samhengi.

Fyrstu átta mánuðir ársins hafa verið óvenjuþurrir um vestan- og norðvestanvert landið. Úrkoma í Reykjavík hefur ekki verið jafnlítil síðan 1996 og í Stykkishólmi síðan 1985.

Meðalloftþrýstingur fyrstu 8 mánuði ársins er óvenjuhár í Reykjavík, hefur ekki verið jafnhár síðan 1888.

 





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica