Fréttir
Jarðskjálftar í apríl
Upptök jarðskjálfta á Íslandi í apríl 2010.

Jarðskjálftar í apríl 2010

12.5.2010

Um 1.100 jarðskjálftar voru staðsettir með SIL- mælikerfi Veðurstofunnar í apríl. Helsta skjálftavirknin var undir Eyjafjallajökli og í Tjörnesbrotabeltinu. Nokkuð dreifð skjálftavirkni var undir Reykjaneshrygg og fáeinir smáskjálftar mældust á Reykjanesskaga.

Á Hengilssvæðinu og í Ölfusi mældust frekar fáir skjálftar og aðallega sunnarlega á Krosssprungu og við Raufarhólshelli. Fáir skjálftar voru staðsettir í vestara gosbeltinu.

Mesta skjálftavirkni á landinu í apríl var í Eyjafjallajökli. Á meðan á eldgosinu á Fimmvörðuhálsi stóð mældist fjöldi skjálfta í austuröxl eldstöðvarinnar vegna innskotavirkni. Því gosi lauk um 12. apríl. Að kvöldi 13. apríl hófst síðan kröftug skjálftahrina á litlu dýpi við toppgíg Eyjafjallajökuls. Yfir hundrað skjálftar mældust í hrinunni sem stóð fram á morgun. Skjálfta- og gosóróavirkni þá nótt markaði upphaf síðara eldgossins í eldstöðinni.

Viðvarandi skjálftavirkni var undir norðvestanverðum Vatnajökli, mest norðaustanundir Bárðarbungu og við Kistufell. Einnig var nokkur virkni við Öskju og á Herðubreiðarsvæðinu. Reytingur af skjálftum mældist á Þeistareykja- og Kröflusvæði.

Fyrir utan virknina í Eyjafjallajökli mældist mest af skjálftum í mánuðinum í Tjörnesbrotabeltinu. Fyrstu daga apríl var þó nokkur virkni í Öxarfirði, eða um hundrað skjálftar. Þann 16. apríl varð skjálfti, 3,6 að stærð, suðaustan við Grímsey og mældust tugir skjálfta á svæðinu næstu daga. Einnig mældist nokkuð af skjálftum úti fyrir mynni Eyjafjarðar.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica