Fréttir
Eldgos, Eyjafjallajökull
Séð til austurs inn í Þórsmörk 27. apríl. Gosmökkinn leggur til vesturs.

Tíðarfar í apríl 2010

Stutt tíðarfarsyfirlit

3.5.2010

Hiti aprílmánaðar var nærri meðallagi. Um norðvestanvert landið var hiti rétt yfir meðallagi en rétt undir því annars staðar. Kaldast að tiltölu var austanlands. Hlýjast var í annarri viku mánaðarins, en tiltölulega kaldast í kringum sumardaginn fyrsta.

Meðalhitinn í Reykjavík var 2,8 stig og er það 0,1 stigi undir meðallagi. Hiti var einnig 0,1 stigi undir meðallagi á Akureyri en meðalhitinn þar mældist nú 1,5 stig. Meðalhita á fleiri stöðvum má sjá í töflu.

Meðalhiti og hitavik í apríl 2010:

stöð hiti vik röð af
Reykjavík 2,8 -0,1 71 140
Stykkishólmur 2,4 0,7 51 165
Bolungarvík 1,4 0,7 42 113
Akureyri 1,5 -0,1 65 128
Egilsstaðir 0,4 -0,9 40 61
Dalatangi 1,1 -0,3 46 72
Teigarhorn 1,8 -0,5 80 137
Höfn í Hornaf. 2,6 -0,2
Stórhöfði 2,9 -0,4 88 133
Hveravellir -3,3 0,0 26 45

Meðalhiti í Reykjavík var lægri í apríl heldur en í mars. Þetta gerist endrum og sinnum, síðast 1991, og var munurinn þá meiri en nú. Apríl hefur einu sinni verið kaldasti mánuður ársins í Reykjavík. Það var 1953.

Úrkoma og sólskinsstundir

Úrkoma í Reykjavík mældist 35,7 mm og er það aðeins um 61 prósent meðalúrkomu. Á Akureyri mældist úrkoman 34,1 mm og er það um 17 prósentum umfram meðallag.

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 175,4 og er það 35,2 stundum umfram meðallag. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 147,5 og er það 17,8 stundum umfram meðallag.

Hæsti og lægsti hiti

Hæsti hiti mánaðarins mældist á sjálfvirku stöðinni á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði þann 10., 15,6 stig. Þá mældist hámarkið á mönnuðu stöðinni á sama stað 15,0 stig og er hámark mánaðarins á mannaðri stöð.

Lægsti hiti mánaðarins mældist á Brúarjökli þann 23., -23,7 stig. Í byggð mældist mest frost á Brú á Jökuldal, -17,1 stig, sömuleiðis þann 23. Þetta er hvort tveggja lægri hiti en áður hefur mælst á landinu þennan dag, að minnsta kosti frá 1924. Nýtt lágmarksmet fyrir landið var einnig slegið daginn áður, þá mældist frostið -23,4 stig á Brúarjökli. Byggðarmetið þann 23. sló út met sem sett var á Vöglum í Vaglaskógi 23. apríl 1967. Lægstur hiti á mannaðri stöð mældist á Staðarhóli í Aðaldal þann 1., -14,4 stig.

Vindur og snjór

Vindhraði var nærri meðallagi á landinu. Fyrstu daga mánaðarins var talsverð ófærð norðaustanlands og voru 50 ferðamenn á Víkurskarði fluttir með björgunarsveitum til Akureyrar aðfaranótt hins 3. Sömuleiðis þurfti að bjarga ferðamönnum í villu á Fimmvörðuhálsi. Tveir urðu úti á hálendinu norðan við Þórsmörk um páskana, einn bjargaðist naumlega. Foktjón varð að kvöldi þess 10. á bænum Krossum á Árskógsströnd í miklu sunnan- og suðvestanroki.

Fyrstu fjórir mánuðir ársins

Fyrstu fjórir mánuðir ársins 2010 hafa verið hlýir. Hiti í Reykjavík hefur verið 1,3 stigum ofan meðallags, en 0,7 stigum ofan meðallags á Akureyri. Þurrt hefur verið um landið suðvestanvert, mánuðirnir fjórir hafa ekki verið jafnþurrir frá 1995 í Reykjavík. Á Akureyri hefur verið úrkomusamt að slepptum fádæma þurrum janúar þar um slóðir. Loftþrýstingur hefur haldið áfram að vera óvenjuhár Þó að einstakir mánuðir hafi verið fjarri metum hefur meðalþrýstingur fyrstu fögurra mánaða ársins ekki verið hærri í Reykjavík síðan 1929 en var þó mjög svipaður sömu mánuði 1969.

Alhvítir dagar voru aðeins 16 í Reykjavík á tímabilinu október til apríl. Sé miðað við tímabilið 1961 til 1990 eru alhvítu dagarnir 39 færri en í meðalári. Alhvítir dagar hafa aðeins einu sinni orðið færri á sama tímabili ársins. Það var veturinn 1976 til 1977, þá voru alhvítir dagar 10. Alhvítir dagar frá áramótum eru 9, það er 28 dögum færri en í meðalári. Ekki voru nema fjórir alhvítir dagar frá áramótum til aprílloka 1929.

Að meðaltali verður alhvítt að minnsta kosti einn dag í maí á 6 til 7 ára fresti í Reykjavík. Þrír alhvítir dagar voru í maí 1993.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica