Fréttir
Jarðskjálftavirkni í febrúar 2010
Upptök jarðskjálfta á Íslandi í febrúar 2010

Jarðskjálftar í febrúar 2010

12.3.2010

Í febrúar 2010 staðsetti SIL jarðskjálftakerfi Veðurstofunnar yfir 2.000 jarðskjálfta. Stærsti jarðskjálfti mánaðarins var ML 4 að stærð þann 20. febrúar kl. 14:59, með upptök ~9 km ANA af Bárðarbungu í norðanverðum Vatnajökli. Dagleg skjálftavirkni var allt frá 31 skjálfta upp í 225 skjálfta og var mesta virknin þann 18. febrúar vegna jarðskjálftahrinu suðvestan við Geirfugladrang suðvestur af Reykjanestá. Skjálftastærðir voru á bilinu ML -1 til ML 4, þar af voru 229 minni en ML 0, en 27 skjálftar náðu stærðinni þremur og yfir. Flestir skjálftar mældust á dýptarbilinu 5-10 kílómetrar.

Allsnarpar jarðskjálftahrinur voru nyrst á Reykjaneshryggnum í mánuðinum. Dagana 8.-10. febrúar voru jarðskjálftahrinur með upptök suðvestan og norðaustan við Eldey. Stærstu jarðskjálftarnir í þessum hrinum voru 3,5 og 3,8 að stærð. Sá minni þann 8. febrúar með upptök suðvestan við Eldey og sá stærri þann 10. febrúar norðvestan við eyna og fannst hann vel á Bláfeldi á Snæfellsnesi. Lítil skjálftahrina var þá einnig við Geirfugladrang eða um 40 kílómetra suðvestur af Reykjanestá.

Öflug jarðskjálftahrina við Geirfugladrang kom svo fram dagana 17.-18. febrúar. Stærsti jarðskjálftinn í þeirri hrinu var 3,9 stig þann 18. febrúar. Einnig voru í mánuðinum fáeinir jarðskjálftar með upptök um 15-20 kílómetra suðvestur af Eldeyjarboða.

Lítil jarðskjálftavirkni var á Reykjanesskaganum. Fáeinir jarðskjálftar voru við Kleifarvatn svo og sunnan og suðaustan við Bláfjöll. Á Hengilssvæðinu var lítil jarðskjálftavirkni en þó mældust á þriðja tug jarðskjálfta við Húsmúla líklega vegna niðurdælingatilraunar í borholu þar í grennd.

Við norðanverðan Langjökul mældust nokkrir skjálftar í byrjun mánaðarins, sá stærsti 1,9 stig. Um miðjan mánuðinn mældust fáeinir jarðskjálftar við Geitlandsjökul og Þórisjökul og frá miðjum mánuðinum mældust um 12 jarðskjálftar með upptök um fimm kílómetra austan við Skjaldbreið. Allir þessir skjálftar voru minni en 1,5 stig að stærð. Einn skjálfti að stærð 1,7 var um átta kílómetra norðaustur af Skjaldbreið þann 28. febrúar.

Á tímabilinu 8.-13. febrúar mældust 40 jarðskjálftar með upptök við Tvídægru í Borgarfirði. Stærsti jarðskjálftinn mældist 2,4 stig þann 10. febrúar. Þann 17. febrúar mældist einn jarðskjálfti að stærð 1,3 með upptök vestan við Langavatn á Mýrum.

Skjálftavirkni á Hengilssvæðinu var mjög svipuð og hún hefur verið undanfarnar vikur. Skammt frá Hellisheiðarvirkjun mældust 22 smáskjálftar og skammt frá Raufarhólshelli mældust 11 skjálftar. Um fjórum kílómetrum norðvestur af Geitafelli mældust 7 skjálftar.

Á Suðurlandi var skjálftavirknin einnig mjög svipuð og hún hefur verið undanfarið, en þar mælast flestir skjálftar við Kross-sprunguna (kennd við bæinn Kross). Þar mældust nú 57 skjálftar, nánast allir undir einum af stærð, en tveir skjálftar voru tæplega 1,5 af stærð.

Framan af mánuðinum var skjálftavirkni svipuð í Eyjafjallajökli og hún var í janúar. Í síðustu vikunni í febrúar jókst skjálftavirknin enn frekar. Alls mældust 466 skjálftar, þar af 312 í síðustu vikunni. Stærstu skjálftarnir voru um 2,5 að stærð. Hér má sjá kort sem sýnir upptök jarðskjálfta undir Eyjafjallajökli yfir núll að stærð og sem hafa mælst á a.m.k. þremur jarðskjálftamælistöðvum.

Yfir 480 skjálftar mældust undir Vatnajökli og hálendinu norðan Vatnajökuls. Virkust voru svæðin við Herðubreið, Kistufell og við norðanverða Bárðarbungu, en auk þess mældust skjálftar við Öskju og norðan Vaðöldu, við Hlaupfell, í Kverkfjöllum, Grímsvötnum og á Lokahrygg. Þá hófst einnig hrina í norðaustanverðri Bárðarbungu 20. febrúar, í kjölfar stærsta jarðskjálfta mánaðarins. Jarðskjálftinn undir Bárðarbungu var einn sá stærsti sem hefur orðið á svæðinu síðan 2002. Yfir lengri tíma litið eru þó skjálftar af þessari stærð algengir. Hrinan innihélt yfir 130 jarðskjálfta og varði í þrjá daga. Skjálftarnir voru af stærðinni ML 0,5 til ML 4 og á 9 kílómetra meðaldýpi.

Þó nokkur virkni var á Tjörnesbrotabeltinu, einna mest við Grímsey. Þar var framhald á hrinunni í janúar, en stærsti skjálftinn nú var 3,2 stig, og voru upptök hans skammt norðaustan við eyna. Þá varð smáhrina norðan við Tjörnes og nokkur virkni í Öxarfirði. Nokkrir smáskjálftar mældust í grennd við Kröflu. Tveir skjálftar mældust um 30 kílómetra austur af Langanesi, báðir voru tvö stig. Þá mældust þrír skjálftar norður á Kolbeinseyjarhrygg, um 250 kílómetra fyrir norðan land. Þeir voru 2,5-2,6 stig.

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica