Fréttir
gömul forsíða
Forsíða tímaritsins Veðursins 1. hefti 2. árgangs árið 1957.

Tímaritið Veðrið

Komið á timarit.is

7.1.2010

Félag íslenskra veðurfræðinga gaf á árunum 1956 til 1978 út tímritið Veðrið. Lengst af kom það út tvisvar á ári, en strjálara undir lokin, varð að lokum að lúta í gras fyrir verðbólguskrímslinu og öðrum ónefndum nútímaóvættum. Ritið er nú í heild aðgengilegt stafrænt á timarit.is. Var ritið skannað á Landsbókasafni Íslands - Háskólabókasafni að beiðni Veðurstofu Íslands. Hefur Veðurstofan átt gott samstaf við safnið um skönnun tímarita og er Veðráttan og forverar hennar á timarit.is árangur þess samstarfs.

Óhætt mun að fullyrða að í Veðrinu sé samankomið mikið safn fróðleiks og fræða þyrstum áhugamönnum um veður og tengd fyrirbæri til nokkurrar svölunar.

Farið á timarit.is, þaðan í titlalista og Veðrið er þar á sínum stað aftarlega í stafrófinu. Einnig er hægt að leita bæði nafna og hugtaka í texta ritsins með leitarvélinni á tímaritavefsetrinu. Hafið þó í huga að sumir íslenskir stafir geta leynt á sér í stafræna textanum, sérstaklega lágstafirnir á, í og æ, auk sumra hástafa.

Jón Eyþórsson fylgdi ritinu úr hlaði með eftirfarandi leiðara 1. tölublaðs 1. árgangs:

Fylgt úr hlaði

Þetta rit er tómstundavinna nokkurra veðurfræðinga, er nú starfa á Veðurstofu Íslands. Því er ætlað það hlutverk að ræða um veðrið við landsmenn almennt og halda til haga fróðleik um veðráttu og veðurfar að fornu og nýju.

Það þarf að vísu nokkra djörfung og bjartsýni til þess að fitja upp á nýju tímariti á landi hér, svo mörg sem þegar eru fyrir. En við, sem að þessu riti stöndum, höfum þá trú, að tilraun okkar eigi rétt á sér. Okkur kemur ekki til hugar, að við munum bæta fjárhag okkar með henni, en við þykjumst hafa í fórum okkar ýmislegt til gagns og fróðleiks landsmönnum til sjávar og sveita, og við erum þess vissir líka, að þeir kunni frá mörgu að segja, sem vert sé að halda til haga og geyma í riti þessu.

Íslendingar hafa löngum átt afkomu sína að mestu undir sól og regni, enda hafa þeir gert sér tíðrætt um veðrið. Sést það m. a. á því, hversu miklum veðurfróðleik hefur verið bjargað frá gleymsku á liðnum öldum. Þess vegna gat Þ. Thoroddsen fyllt heila bók um íslenzkt árferði í þúsund ár. Á nokkrum undanförnum árum hefur sprottið upp stétt manna, þótt fámenn sé, sem hlotið hefur sérmenntun i veðurfræði og vinnur ýmisleg og harla sundurleit störf á vegum Veðurstofunnar. Vinnutími þeirra margra er ærið óreglulegur, næturvökur og langir vinnudagar, en tilskildar tómstundir á milli. Þessum tómstundum geta þeir varið sér til skemmtunar eingöngu, og þeir geta varið þeim að nokkru leyti til fræðilegra starfa. Fyrir sjálfa þá og þjóðfélagið er mikils virði, að síðari kosturinn sitji í fyrirrúmi. Þetta er líka skoðun hinna ungu veðurfræðinga, sem standa að útgáfu þessa rits og hafa tekið á sig fjárhagslega skuldbindingu til þess að koma því af stað.

VEÐRIÐ mun fyrst um sinn koma út tvisvar á ári, en væntanlega fjórum sinnum síðar, ef það á líf fyrir höndum. Það mun flytja frásagnir af minnisstæðum veðrum, einkennilegum fyrirbrigðum í lofti, fræðilegar ritgerðir og svör við fyrirspurnum o. s. frv. Útgefendur vænta sér mikillar og góðrar samvinnu við veðurglögga menn víða um land og óska eftir bréfum frá þeim eða ritgerðum um veður og veðráttu í blíðu og stríðu.

Jón Eyþórsson

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica