Fréttir
froststilla, hrímuð tré
Úr Fossvogsdal 30. desember 2009.

Desember 2009

Stutt tíðarfarsyfirlit

4.1.2010

Tíðarfar í desember var hagstætt. Úrkomusamt var norðanlands en lengst af var úrkoma lítil sunnanlands og vestan. Kalt var fyrsta dag mánaðarins en síðan var óvenjuhlýtt í veðri fram til þess 18. Afgangur mánaðarins einkenndist af kulda og stillum. Þó var illviðri og snjóflóðahætta um norðvestanvert landið á aðfangadag. Foktjón varð austanlands og í Vestmannaeyjum dagana 19. og 20.

(Yfirlit ársins 2009 er sérstök fróðleiksgrein).

Hitafar

Hiti var yfir meðallagi um land allt. Í Reykjavík var meðalhitinn 0,9 stig og er það 1,1 stigi ofan meðallags. Á Akureyri mældist meðalhitinn -1,0 stig, en það er 0,8 stigum ofan við meðallag. Á Höfn í Hornafirði var meðalhitinn 1,2 stig og er það 0,8 stigum ofan meðallags. Á Hveravöllum var meðalhitinn -4,7 stig, eða 1,6 stigi ofan meðallags. Meðalhiti á fleiri stöðvum er í töflu.

Meðalhiti á nokkrum veðurstöðvum, vik frá meðallagi og staða

stöð t vik röð af
Reykjavík 0,9 1,1 46 139
Stykkishólmur 0,8 1,6 34 165
Bolungarvík 0,6 1,4 33 113
Akureyri -1,0 0,8 53 129
Egilsstaðir -0,9 1,3 21 60
Dalatangi 2,0 1,5 22 72
Höfn í Hornaf. 1,2 0,8
Stórhöfði 2,1 0,7 55 133
Hveravellir -4,7 1,6 15 45

Úrkoma og sólskinsstundir

Þurrviðrasamt var um suðvestan- og vestanvert landið en úrkomusamt norðaustanlands. Úrkoman mældist 42,7 mm í Reykjavík, ríflega helmingur meðalúrkomu. Nærri helmingur þess magns féll á einum degi. Fjöldi daga þegar úrkoma mældist 1 mm eða meiri var aðeins 8, en er 14 í meðaldesember. Þetta er þurrasti desember í Reykjavík frá 1985, en ámóta lítil úrkoma mældist þó í desember 1996 og 2000.

Úrkoma á Akureyri mældist 127,4 mm og er það meira en tvöföld meðalúrkoma í desember. Þetta er mesta úrkoma sem mælst hefur í desember á Akureyri síðan samfelldar úrkomumælingar hófust þar 1927. Úrkoma í desember 1992 var þó ámóta mikil og nú. Í desember 1925 mældist úrkoma í Gróðrarstöðinni á Akureyri 165,9 mm. Úrkoma á Höfn í Hornafirði mældist 145,9 mm og er það um 23% umfram meðallag.

Sólskinsstundir mældust 29 í Reykjavík og er það 17 stundum fleiri en í meðalári og með almesta móti. Flestar urðu sólskinsstundirnar í desember 30, það var 1976, og 29 stundir mældust einnig í Desember 1981. Ekkert sólskin mældist á Akureyri í desember fremur en oftast áður.

Vindhraði var undir meðallagi.

Hæsti og lægsti hiti mánaðarins

Hæsti hiti í mánuðinum mældist 15,5 stig á Siglufirði þann 11. Hæsti hiti á mannaðri stöð mældist á Sauðanesvita, 14,7 stig og var skráður að morgni þess 12.

Lægsti hiti mánaðarins mældist á Brúarjökli þann 30., -25,2 stig. Í byggð mældist lægsti hiti mánaðarins við Mývatn þann 28. -24,0 stig. Lægstur hiti á mannaðri veðurstöð mældist á Torfum í Eyjafjarðarsveit þann 31., -22,4 stig.

Óvenjuhlýtt var á landinu 11. og 12. Nýtt hámarksdagsmet fyrir landið var sett þann 12. er hiti komst í 15,1 stig á sjálfvirku stöðinni á Skjaldþingsstöðum, eldra hámark þennan dag var 14,5 stig. Þann 11. komst hiti á mönnuðu stöðinni í Reykjavík í 11,0 stig og er það mesti hiti sem mælst hefur þar þennan dag, eldra hámark, 9,8 stig, var frá 1978 og 2001. Daginn eftir, þann 12., komst hiti á mönnuðu stöðinni í 11,5 stig og er einnig hæsti hiti sem mælst hefur á stöðinni þann dag, eldra hámark, 10,7 stig, var frá 1978. Dægurhámarksmet af þessu tagi eru sett að meðaltali 2 til 4 sinnum á ári hverju í Reykjavík, en 4-7 sinnum á landinu í heild.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica