Fréttir
merki
Merki loftslagsráðstefnunnar í Kaupmannahöfn.

Loftslagsráðstefnan í Kaupmannahöfn

11.12.2009

Dagana 7. - 18. desember er haldinn í Kaupmannahöfn 15. fundur aðila að rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar. Tilgangur fundarins er að ná samkomulagi um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda en fyrsta skuldbindingartímabili núverandi samkomulags, Kyoto bókunarinnar, lýkur árið 2012.

Veðurstofa Íslands kemur ekki að viðræðum um takmörkun á losun gróðurhúsalofttegunda. Stofnunin sinnir vöktun á náttúrufari og rannsóknum, m.a. á áhrifum loftslagsbreytinga á Íslandi.

Samfara ráðstefnunni eru margskonar fundir og kynningar á rannsóknum á loftslagsbreytingum og afleiðingum þeirra. Fyrir hönd Veðurstofu Íslands mun dr. Tómas Jóhannesson kynna rannsóknir á áhrifum loftslagsbreytinga á Íslandi, sérstaklega mælingar á þynningu jökla.

Um þessar mundir er mikið fjallað um loftslagsbreytingar og áhrif þeirra í fjölmiðlum víða um heim. Meðal þess efnis sem gefið var út í aðdraganda ráðstefnunnar er skýrsla 50 vísindamanna um loftslagsbreytingar og nýjar upplýsingar sem komið hafa fram á þeim þremur árum sem liðin eru síðan ritun síðustu skýrslu milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) lauk.

Skýrsla þessi heitir Kaupmannahafnargreiningin eða The Copenhagen Diagnosis“. Í meðfylgjandi fróðleiksgrein er fjallað um helstu niðurstöður hennar.

merki






Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica