Fréttir
land umflotið vatni
Flóðið í Vatnsdal.

Nóvember 2009

stutt tíðarfarsyfirlit ásamt haustyfirliti

1.12.2009

Mánuðurinn var fremur hlýr, hlýjast að tiltölu við ströndina austan- og sunnanlands en kaldast á norðvestanverðu landinu. Vægt kuldakast var í upphafi en svo hlýnaði og var mjög hlýtt á landinu fram yfir miðjan mánuð. Þann 18. og 19. gerði kuldakast á norðanverðu landinu. Undir mánaðarlok kólnaði svo um allt land.

Úrkomu var mjög misskipt. Hún var talsvert umfram það sem venja er á norðan- og austanverðu landinu en talsvert minni en í meðalárferði sunnan- og vestanlands. Sólskinsstundir voru umfram meðallag, einkum á sunnan- og vestanverðu landinu.

Hitafar

Meðalhitinn í Reykjavík var 3,1 stig sem er 2,0 stig yfir meðaltalinu 1961-1990. Á Akureyri var meðalhitinn 1,2 stig sem er 1,6 stig yfir meðaltali. Á báðum stöðvum var nóvember í ár heldur hlýrri en í fyrra og heldur kaldari en í hitteðfyrra. Á Höfn í Hornafirði var meðalhitinn 3,8 stig sem er 1,9 stig yfir meðaltali og á Hveravöllum var hitinn -3,0 stig og er það 1,8 stig yfir meðaltali.

Meðalhiti á nokkrum veðurstöðvum, vik frá meðallagi og staða

stöð t vik röð af
Reykjavík 3,1 2,0 19 139
Stykkishólmur 2,1 1,2 49 164
Bolungarvík 1,7 0,9 35 113
Akureyri 1,2 1,6 34 128
Egilsstaðir 1,6 2,3 12 60
Dalatangi 3,7 2,5 18 72
Höfn í Hornafirði 3,8 1,9
Stórhöfði 4,6 2,1 12 133
Hveravellir -3,0 1,8 11 45


Hellisheiðarvirkjun
margir gufustrókar hlið við hlið
Hellisheiðarvirkjun í stafalogni 7. nóvember 2009. Ljósmynd: Heiðrún Sæmundsdóttir.

Úrkoma, sólskinsstundir og vindhraði

Úrkoman í Reykjavík mældist 34,7 mm sem er aðeins 48% af því sem venja er. Ekki hefur mælst svo lítil úrkoma í nóvember síðan árið 2000 en þá var hún 10,1 mm. Úrkoman á Akureyri mældist 87,3 mm sem er 62% umfram meðallag og það mesta í nóvember síðan 2006 en þá var hún 94 mm.

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 44,8 sem er 5,8 stundum fleiri en í meðalárferði. Á Akureyri voru sólskinsstundir 18,2 sem er 3,2 stundum fleiri en venja er.

Vindhraði var í ríflegu meðallagi, heldur meiri en í fyrra og hitteðfyrra en talsvert minni en í nóvember 2006.

Hæsti og lægsti hiti mánaðarins

Hæsti hitinn mældist á sjálfvirkri stöð á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði, 12,7 stig þann 9. og 12,2 stig á mannaðri stöð á sama stað sama dag.

Kaldast á sjálfvirkri stöð var -17,8 stig á Brúarjökli 29. nóvember og -17,2 stig þann 28. á sama stað. Á Hveravöllum mældust -16,5 stig þann 27. Lægstur hiti á mannaðri stöð var -12,1 stig á Staðarhóli þann18.

Haustið (október og nóvember)

Meðalhiti haustins í Reykjavík var 4,1 stig sem er 1,3 stig ofan meðallags. Á Akureyri var meðalhitinn 2,0 stig sem er 0,7 stig ofan meðallags. Úrkoman í Reykjavík mældist 113,0 mm sem er um 7/10 hlutar meðalúrkomu en á Akureyri var hún 139,3 mm sem er um fjórðungi umfram meðallag. Sólskinsstundir í Reykjavík voru 99,9 sem er 22,1 færri en venja er og á Akureyri voru þær 58,6 sem er 8,4 færri sólskinsstundir en venjulega.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica