Jarðskjálftaráðstefna á föstudag
Alþjóðleg ráðstefna um jarðskjálfta og aðdraganda þeirra
Ráðstefna helguð minningu Sigurðar Th. Rögnvaldssonar jarðeðlisfræðings, sem var mjög virkur í jarðskjálftarannsóknum á Íslandi, verður haldin föstudaginn 30. október 2009 í Víðgelmi í Orkugarði að Grensásvegi 9.
Yfirstandandi ár markar margháttuð tímamót þar sem nú eru liðin 100 ár frá því að fyrsti jarðskjálftamælirinn var settur upp á Íslandi, 30 ár síðan þenslumælingar hófust á landinu og net samfelldra GPS mælinga á Íslandi er 10 ára. Auk þess eru 20 ár síðan fyrsta stöðin var sett upp í sjálfvirka jarðskjálftakerfinu, sem kallast SIL.
Að þessari alþjóðlegu ráðstefnu um jarðskjálftafræði og þróun jarðskjálftaspárannsókna stendur Veðurstofa Íslands í samvinnu við Háskóla Íslands, Háskólann á Akureyri, Háskólann í Reykjavík, Íslenskar orkurannsóknir, Uppsalaháskóla og fleiri.
Ráðstefnan hefst með ávarpi Steinunnar S. Jakobsdóttur jarðeðlisfræðings kl. 08:30 en dagskrána má lesa á vefsíðu ráðstefnunnar.