Fréttir
Jarðskjálftar í september 2009
Jarðskjálftar í september 2009.

Jarðskjálftar í september 2009

8.10.2009

Hátt í 1.500 jarðskjálftar voru staðsettir með SIL kerfi Veðurstofunnar í september 2009.

Lítið mældist af jarðskjálftum á Reykjaneshrygg. Skjálftavirkni á Reykjanesskaga var minni en undanfarna mánuði. Þó varð smáskjálftahrina austan við Fagradalsfjall fyrstu vikuna í september, þar sem um 70 jarðskjálftar voru staðsettir, sá stærsti 1,3 stig.

Flestir jarðskjálftar í Suðurlandsbrotabeltinu urðu á eftirskjálftasvæði meginskjálftans frá 29. maí 2008. Virkasta svæðið í september var í Flóanum, suðvestur af Selfossi, þ.e. við suðurenda Krosssprungunnar. Mesti daglegi fjöldi skjálfta mældist í hrinu 9. september, eða um 70. Stærsti jarðskjálfti hrinunnar var um þrjú stig og fannst á Selfossi, í Hveragerði og á Eyrarbakka.

Meginhluta septembermánaðar var köldu vatni dælt niður í borholu við Húsmúla til að örva holuna. Niðurdælingin kom tvisvar af stað röð smáskjálfta, sex mældust 17. september og átján 28. - 29. september. Upptök voru á um fjögurra kílómetra dýpi, um einn til tvo kílómetra norður af Hellisheiðarvirkjun.

Í vestara gosbeltinu mældust fáir jarðskjálftar í september. Helst má nefna smávirkni við Guðlaugstungur, norðan Hveravalla. Þar mældist um tugur jarðskjálfta í þriðju viku mánaðarins.

Nokkur smáskjálftavirkni var á Torfajökulssvæðinu. Fáir jarðskjálftar mældust undir Eyjafjallajökli, en í júlí og ágúst var svæðið nokkuð virkt. Undir Mýrdalsjökli voru staðsettir um 70 skjálftar, flestir undir vestanverðum jöklinum.

Mesta skjálftavirkni á Vatnajökulssvæðinu var eins og endranær undir norðvesturjöklinum. Stærsti jarðskjálftinn varð undir Kverkfjöllum 15. september. Hann var um þrjú stig og á um átta kílómetra dýpi. Nokkrir ísskjálftar mældust í Skeiðarárjökli og Brúarjökli.

Norðan Vatnajökuls var Herðubreiðarsvæðið virkast. Skjálftavirkni sunnan undir Herðubreið og norðvestan við Herðubreiðartögl, sem hófst í ágúst, hélt áfram fyrstu daga septembermánaðar. Síðustu daga mánaðarins hófst svo skjálftahrina norðaustan undir Herðubreið. Rétt austan við Öskju voru á annan tug jarðskjálfta staðsettir. Jarðskjálftar mældust áfram við Hlaupfell norðan Upptyppinga, um fjörutíu talsins.

Nokkur smáskjálftavirkni var á Kröflu- og Þeistareykjasvæðum.

Þó nokkuð af jarðskjálftum voru staðsettir norðan við land í september, í Tjörnesbrotabeltinu, allir þó undir þremur stigum að stærð. Skjálftavirkni mældist úti fyrir mynni Eyjafjarðar allan mánuðinn, en svæðið var einnig virkt í ágúst. Um 70 jarðskjálftar mældust í skjálftahrinu 20 kílómetrum suðaustur af Grímsey fyrstu vikuna. Svæði norður af Tjörnesi varð virkt 10.september. Nærri tvö hundruð jarðskjálftar voru staðsettir þar frá 10. - 13. september og hélt virknin áfram næstu daga, þó ekki af sama krafti. Seinni hluta mánaðarins var svo svæði um 40 kílómetrum vestur af Grímsey virkt, þar sem stærstu jarðskjálftarnir voru nálægt þremur stigum.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica