Fréttir
Ís á polli
Fyrsta skæni vetrarins á litlum polli.

September 2009

Stutt tíðarfarsyfirlit ásamt sumaryfirliti

1.10.2009

Mánuðurinn var fremur hlýr um land allt, hlýjastur að tiltölu austanlands, en svalastur á Vestfjörðum. Úrkoma var í ríflegu meðallagi en sólskinsstundir með færra móti um landið sunnanvert.

Meðalhitinn í Reykjavík var 8,4 stig og er það 1,0 stigi ofan meðallags áranna 1961-1990, heldur kaldara en á síðasta ári en öllu hlýrra en í hitteðfyrra. Á Akureyri var meðalhitinn 7,9 stig eða 1,5 stigi ofan meðallags. Á Höfn í Hornafirði var meðalhitinn 8,7 stig, 1,0 stigi ofan meðallags, eins og í Reykjavík. Á Hveravöllum var meðalhiti septembermánaðar 3,5 stig og er það 1,1 stigi ofan meðallags. Meðaltal fleiri stöðva má sjá í töflu.

Meðalhiti á nokkrum veðurstöðvum, vik frá meðallagi og staða

stöð t vik röð af
Reykjavík 8,4 1,0 41 139
Stykkishólmur 7,9 1,1 52 164
Bolungarvík 6,9 0,7 50 113
Akureyri 7,9 1,5 43 128
Egilsstaðir 7,9 1,7 15 60
Dalatangi 8,5 1,9 12 72
Höfn í Hornaf. 8,7 1,0
Stórhöfði 8,5 1,2 32 133
Hveravellir 3,5 1,1 15 45

Úrkoma og sólskinsstundir

Úrkoma í Reykjavík mældist 78,4 mm, en það er 17% umfram meðallag. Þetta er innan við helmingur þess sem mældist í september, bæði í fyrra og hitteðfyrra, en þeir mánuðir voru óvenjuúrkomusamir. Úrkoman á Akureyri mældist 41,2 mm og er það um 6% umfram meðallag.

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 72, það er 53 stundum minna en í meðalárferði. Sólskinsstundir hafa ekki verið svo fáar í september síðan 1996. Í september 2002 voru sólskinsstundirnar þó litlu færri en nú. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 110, það mesta frá september 2003 og 24 stundir umfram meðallag.

Vindhraði í september var undir meðallagi og mánuðurinn sá hægasti síðan 2002.

Hæsti og lægsti hiti mánaðarins

Framan af mánuðinum var mjög hlýtt í veðri og var óvenjuhlýtt í vikunni fyrir miðjan mánuð, síðustu dagana var hins vegar óvenjukalt miðað við árstíma.

Hæsti hiti sem mældist í mánuðinum var 22,4 stig og var það í Ásbyrgi þann 13. Hæsti hiti á mannaðri veðurathugunarstöð mældist 20,4 stig, það var á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði þann 12.

Lægsti hiti í mánuðinum mældist -11,5 stig og var það í Sátu, skammt norðan Hofsjökuls, þann 28. Lægsti hiti í byggð, -8,2 stig, mældist í Árnesi og Kálfhól þann 29. Báðar stöðvarnar eru í uppsveitum Árnessýslu. Lægstur hiti á mannaðri veðurstöð mældist á Torfum í Eyjafirði þann 28., -7,5 stig.

Hrútfell á Kili
Sept2009-HS-5
Hrútfell á Kili, séð frá skálanum við Þverbrekknamúla 3. september 2009. Ljósmynd: Hjörleifur Sveinbjörnsson.

Sumarið (júní til september)

Sumarið var hlýtt, í Reykjavík er það hið 10. til 11. hlýjasta frá upphafi samfelldra mælinga 1871 og það fjórða hlýjasta frá nýliðnum aldamótum. Meðalhiti sumarsins í Reykjavík var 10,7 stig og er það 1,4 stig yfir meðallagi. Ekki varð alveg jafnhlýtt að tiltölu á Akureyri, meðalhiti sumarsins þar var 9,8 stig, 0,8 stigum yfir meðallagi.

Úrkoman í Reykjavík mældist 171 mm og er það um fjórðungi undir meðallagi. Þetta er þurrasta sumar frá 1988 að telja, ámóta þurrt var þó sumarið 1994. Á Akureyri mældist úrkoman 130 mm og er það í meðallagi.

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 709 og er það 106 stundum umfram meðallag. Sólskinsstundir hafa alloft mælst fleiri en nú í júní til september, m.a. bæði í fyrra og hitteðfyrra. Á Akureyri mældust sólskinsstundir sumarsins 599 en það er 43 stundum umfram meðallag og munar mest um sólríkan júlí. Mikið sólarleysi var hins vegar á Akureyri í ágúst.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica