Fréttir
Skjálftavirkni á Íslandi í ágúst 2010
Skjálftavirkni í ágúst 2009

Jarðskjálftar á Íslandi í ágúst 2009

10.9.2009

Yfir 2.000 jarðskjálftar voru staðsettir í SIL kerfi Veðurstofu Íslands í ágúst 2009.

Talsverð skjálftavirkni var á Reykjanesskaga eins og undanfarna mánuði, aðallega á Kleifarvatnssvæðinu. Að kvöldi 31. júlí hófst skjálftahrina um fjórum kílómetrum austan við Keili, sem stóð í um þrjá daga. Stærstu skjálftarnir fundust á höfuðborgarsvæðinu og voru um þrír að stærð. Hátt í 400 jarðskjálftar mældust, flestir 1. ágúst eða um 300, og flestir innan við einn að stærð. Þann 19. ágúst varð jarðskjálfti um þrír að stærð undir Kleifarvatni, sem einnig fannst á höfuðborgarsvæðinu. Í lok mánaðarins varð svo smáskjálftahrina undir Kleifarvatni.

Flestir jarðskjálftar í Suðurlandsbrotabeltinu, eða hátt í tvö hundruð, urðu á eftirskjálftasvæði meginskjálftans frá 29. maí 2008. Nokkrir jarðskjálftar mældust við Surtsey í mánuðinum. Þeir voru á stærðarbilinu 1,0 - 2,7 stig. Á þriðja tug jarðskjálfta mældust undir Eyjafjallajökli, sá stærsti um þrjú stig. Undir Mýrdalsjökli mældust um 60 skjálftar, við Goðabungu og undir Kötluöskju.

Mesta skjálftavirknin undir Vatnajökli var norðaustan í Bárðarbungu. Frá 22. ágúst og út mánuðinn mældust þar um hundrað jarðskjálftar, þeir stærstu um þrjú stig. Á svæði sunnan undir Herðubreið og norðvestan við Herðubreiðartögl mældust hátt í 500 jarðskjálftar, flestir frá og með 19. ágúst. Stærstu voru um þrjú stig. Jarðskjálftar mældust áfram við Hlaupfell norðan Upptyppinga, um fimmtíu talsins.

Norðan við land mældust yfir 300 jarðskjálftar. Mesta skjálftavirknin var úti fyrir mynni Eyjafjarðar. Þar mældust yfir 150 jarðskjálftar í ágúst.

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica