Þingið WCC-3 um loftslagsbreytingar
Aðlögun og loftslagsspár
Þing Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar um loftslagsbreytingar stendur yfir 31. ágúst - 4. september.
Á ensku er þessi ráðstefna kölluð World Climate Congress-3 (WCC-3) en hinar tvær fyrri voru stefnumarkandi í loftlagsmálum; leiddu til stofnunar Milliríkjanefndar Sþ um loftslagsbreytingar (IPCC) og Rammasamnings Sþ um loftslagsbreytingar (UNFCCC).
Forstjóri Veðurstofu Íslands, Árni Snorrason, er á þinginu og heldur erindi um norrænar rannsóknir sem varða loftslags-, orku- og umhverfismál, og Ísland er þáttakandi að.
Sá vandi sem stafar af auknum gróðurhúsalofttegundum krefst tvíþættra aðgerða:
- Annarsvegar þurfa þjóðir heims að ná samkomulagi um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og þannig draga úr umfangi loftslagsbreytinga.
- Hinsvegar þarf að gera ráðstafanir til aðlögunar að þeim loftslagsbreytingum óhjákvæmilegar eru.
Áætlað er að samningar um samdrátt í losun verði til lykta leiddir á COP-15, þ.e. fimmtándu loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem haldin verður í Kaupmannahöfn í desember.
Á WCC-3 (sjá ítarlegri lýsingu, pdf 0,1 Mb) er hinsvegar fjallað um aðlögun að loftslagsbreytingum og hvernig bæta má hana með betri loftslagsspám og upplýsingaveitum. Með loftlagsspám er átt við spár í ætt við veðurspár sem geta gefið til kynna líkindi á afbrigðilegu veðri næstu misseri, og úrvinnslu niðurstaðna loftslagslíkana sem geta gefið til kynna líklegar breytingar ýmissa þátta á næstu áratugum.