Fréttir
Jarðskjálftar á Íslandi í júní 2009
Upptök jarðskjálfta á Íslandi í júní 2009.

Jarðskjálftar á Íslandi í júní 2009

7.7.2009

Rúmlega 2000 jarðskjálftar voru staðsettir í þessum mánuði. Um helmingur þeirra varð á Reykjanesskaga í skjálftaröðum við Krýsuvík 19. og Kleifarvatn 25. júní. Stærstu skjálftar mánaðarins urðu á þessum stöðum og var stærsti skjálftinn 4,2 við Krýsuvík þann 19.

Rúmlega 1000 skjálftar hafa verið staðsettir á Reykjanesskaganum en ekki hefur enn sem komið er unnist tími til að ljúka úrvinnslu úr skjálftaröðunum sem urðu við Krýsuvík þann 19. og Kleifarvatn þann 25. júní.

Klukkan 18:13 föstudaginn 19. júní hófst skjálftaröð við Krýsuvík með skjálfta sem var 4,2 stig. Fjöldi eftirskjálfta fylgdi í kjölfarið og kl. 20:37 varð annar sem var 4,1 að stærð.

Næstu daga dró úr virkninni en um kl. 16:20 fimmtudaginn 25. júní jókst hún aftur og þá austar, þ.e. nær Kleifarvatni, og kl. 17:20 varð skjálfti að stærð 4,0 með upptök við suðvesturhorn vatnsins. Annar skjálfti, sem var rúmlega 3 að stærð, varð tveimur tímum síðar.

Skjálftarnir 19. og 25. fundust mjög vel víða á höfuðborgarsvæðinu en engar tilkynningar bárust frá Suðurnesjum. Á Reykjaneshrygg mældust 34 skjálftar og voru þeir stærstu um 3 stig.

Rúmlega 330 skjálftar mældust á Suðurlandi, þar af um 200 á Kross-sprungunni. Stærsti skjálftinn var um 2 stig og varð í Ölfusinu.

Í Mýrdalsjökli mældust 28 skjálftar, flestir í vesturjöklinum. Stærsti skjálftinn var 2,2 stig. Liðlega 50 skjálftar mældust í Eyjafjallajökli en þar hófst hrina rétt fyrir miðnætti aðfaranótt mánudagsins 15. júní. Mest var virknin á mánudag og þriðjudag en svo dró úr henni. Stærsti skjálftinn var um 2 stig. Á Torfajökulssvæðinu mældust 40 skjálftar og var sá stærsti 2,4 stig.

Tæplega 90 skjálftar og ísskjálftar mældust í Vatnajökli öllum. Stærsti skjálftinn var 2,5 stig og varð við Hamarinn þann 16. júní. Tæplega 30 ísskjálftar mældust í Skeiðarárjökli. Flestir urðu þeir á tímabilinu frá því snemma morguns þann 23. og fram undir hádegi þann 25.

Á svæðinu norðan Vatnajökuls mældust tæplega 120 skjálftar. Mesta virknin var norðan Upptyppinga og Herðubreiðar. Stærsti skjálftinn var rúmlega tvö stig og varð norðan Herðubreiðar.

Á og úti fyrir Norðurlandi mældust 320 skjálftar. Mesta virknin var norðan og austan Grímseyjar og í Öxarfirði. Stærsti skjálftinn varð um 40 km norður af Grímsey þann 7. júní og var hann tæplega 4 stig.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica