Fréttir
gervihnattamynd - Grænland, Ísland
Ísland kemur vel fram 19. júní 2009 á samsettri mynd NASA af norðurheimskautssvæðinu.
1 2

Samsettar gervihnattamyndir

Norðurheimskautið

23.6.2009

Terra og Aqua eru tvö af gervitunglum Geimvísindastofnunar Bandaríkjanna (NASA). Þessi gervitungl eru í 705 km hæð og ganga á braut sem liggur heimskautasvæðanna á milli. Það tekur þau tæpar 100 mínútur að fara umhverfis jörðina.

Bæði þessi tungl fara nærri Íslandi tvisvar á sólarhring, að næturlagi og að degi til. Terra er yfir landinu skömmu eftir hádegi og Aqua um tveimur tímum síðar. Bæði tunglin hafa ýmis mælitæki og meðal þeirra er litrófsgreinirinn MODIS sem mælir útgeislun á 36 tíðnibilum. Nota má gögnin frá honum til að gera mjög nákvæmar myndir í (því sem næst) eðlilegum litum.

Á vefsetrinu MODIS Rapid Response System eru myndir frá Terra og Aqua aðgengilegar, einungis nokkrum tímum eftir að þær voru teknar. Hægt er að fletta myndum hvers dags og leita áhugaverðum myndum. Hver mynd þekur einungis lítinn hluta af yfirborði jarðar og sést stór hluti þess undir nokkru horni.

Nýlega hóf vefsetrið að birta samsetta mynd af norðurheimskautssvæðinu (Daily mosaic of Arctic). Á samsettri mynd er búið að snúa hverjum bút og festa þá saman þannig að nokkuð samfelld yfirsýn fæst af öllu heimskautssvæðinu og ef ský byrgja ekki sýn þá kemur Ísland vel fram neðst fyrir miðju, t.d. 19. júní síðastliðinn. Myndirnar eru teknar yfir nokkurt tímabil á hverjum degi en meðan sól er hæst á lofti á norðurhveli kemur það lítið að sök.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica