Fréttir
Jarðskjálftar á Íslandi í maí 2009
Upptök jarðskjálfta á Íslandi í maí 2009.
1 2

Jarðskjálftar á Íslandi í maí 2009

10.6.2009

Í maí mældust um 3.000 jarðskjálftar, þar af um 2.000 í skjálftaröð við Fagradalsfjall á Reykjanesskaga. Forskjálftavirkni hófst um kl. 17 þann 29. maí, en meginskjálftinn, 4,7 að stærð, varð kl. 21:33 sama kvöld. Upptök hans voru við vestanvert Fagradalsfjall. Hann fannst víða um suðvestanvert landið, vestur í Búðardal og austur að Hvolsvelli. Fjöldi eftirskjálfta fylgdi í kjölfarið, sá stærsti kl. 13:35 daginn eftir með upptök við norðanvert fjallið. Hann var 4,3 stig og fannst einnig víða. Um kvöldið 30. maí fór að draga úr fjölda jarðskjálfta, en enn mælist einhver virkni á svæðinu.

Lítil skjálftavirkni var á Reykjaneshrygg í maímánuði. Vestan og sunnan við Kleifarvatn á Reykjanesskaga var viðvarandi skjálftavirkni allan mánuðinn.

Á Suðurlandi mældist mest af jarðskjálftum á Krosssprungunni sunnanverðri. Stærsti jarðskjálftinn, 2,7 stig, varð 8. maí og fannst hann á svæðinu.

Hátt í 30 skjálftar voru staðsettir í Mýrdalsjökli, flestir í vesturjöklinum og var sá stærsti um 2,5 stig. Nokkrir smáskjálftar mældust í Eyjafjallajökli og nokkuð jöfn skjálftavirkni var á Torfajökulssvæðinu.

Undir Vatnajökli mældust yfir hundrað jarðskjálftar. Mesta virknin var við Bárðarbungu og Kistufell í norðanverðum jöklinum. Stærstu jarðskjálftarnir voru tæplega þrjú stig. Einnig mældust nokkrir ísskjálftar af og til í Skeiðarárjökli.

Á svæðinu norður af Vatnajökli mældust yfir 100 jarðskjálftar, þeir stærstu rúmlega tvö stig. Mesta virknin var norður af Upptyppingum.

Yfir 200 jarðskjálftar mældust norður af landinu í maí. Tvö svæði voru virkari en önnur, um 35 kílómetra norður af Grímsey og í Öxarfirði. Stærstu jarðskjálftarnir voru um þrjú stig.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica