Fréttir
Skýjafar
Skýjafar yfir Hveragerði 13. maí 2009.

Maí 2009

Stutt tíðarfarsyfirlit ásamt voryfirliti

2.6.2009

Mánuðurinn var hlýr, nokkuð úrkomu- og vindasamt var miðað við árstíma, en tíð var samt hagstæð og sólskinsstundir mældust umfram meðallag.

Meðalhitinn í Reykjavík mældist 7,7 stig og er það 1,4 stigi yfir meðallagi. Á Akureyri mældist meðalhitinn 7,3 stig og er það 1,8 stigi yfir meðallagi. Á Höfn í Hornafirði var meðalhitinn 8,1 stig sem einnig er 1,8 stigi yfir meðallagi. Meðalhitinn á Hveravöllum var 2,6 stig og er það 2,0 stigum yfir meðallagi. Enn hlýrra að tiltölu var á Vestfjörðum og við sjóinn austanlands.

Hitayfirlit

stöð meðalhiti vik röð af
Reykjavík 7,7 1,4 19 139
Stykkishólmur 6,9 2,0 13 164
Bolungarvík 6,2 2,3 12 112
Akureyri 7,3 1,8 25 128
Egilsstaðir 6,6 1,8 12 60
Dalatangi 5,7 2,3 7 71
Höfn í Hornaf. 8,1 1,8
Stórhöfði 6,8 1,0 23 113
Hveravellir 2,6 2,0 4 44




Mánuðurinn var úrkomusamur, í Reykjavík mældist úrkoman 66 mm og er það 50% umfram meðalag. Á Akureyri mældist úrkoman 37 mm og er það nærri tvöföld meðalúrkoma. Á Höfn í Hornafirði mældist úrkoman 77 mm og er það í meðallagi.

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 282 og er það 90 stundum umfram meðallag. Í maí 2007, 2003 og 1924 voru sólskinsstundirnar ámóta margar og nú, en talsvert meira sólskin var í maí 1931 og 1958 heldur en nú. Mánuðurinn var einnig tiltölulega sólríkur á Akureyri, þar mældust sólskinsstundirnar 211 og er það 37 stundum umfram meðallag, það mesta í maí frá 2005.

Vindasamt var miðað við árstíma og þarf að leita aftur til 1993 til að finna ámóta vindasaman maímánuð.

Hæsti hiti í mánuðinum mældist á Þingvöllum þann 17., 19,5°C. Hæsti hiti á mannaðri veðurstöð mældist á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði þann 13., 18,6°C.

Lægsti hiti í mánuðinum mældist á Brúarjökli þann 9. -13,5°C, en lægsti hiti í byggð mældist í Árnesi þann 6., -5,7°C. Lægstur hiti á mannaðri veðurstöð mældist á Grímsstöðum á Fjöllum þann 8., -4,4°C.

Vorið (apríl - maí)

Vorið var hlýtt, í Reykjavík ámóta hlýtt og í fyrra og árin 2003 og 2004, en síðan þarf að fara aftur til 1974 til að finna hlýrra vor í Reykjavík. Einnig var hlýtt fyrir norðan, reyndar hlýrra heldur en í fyrra, en ámóta og vorin 2003 og 2004. Síðan þarf að fara aftur til 1987 til að finna hlýrra vor á Akureyri.

Vorið varð það úrkomusamasta í Reykjavík frá 2005 og meðal 5 úrkomusömustu vora í Reykjavík síðan samfelldar mælingar hófust 1921.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica