Mikil úrkoma á Vestur- og Suðvesturlandi
Vantaði ekki mikið upp á met
Óvenjumikil úrkoma var um vestanvert landið þann 11. maí. Í Grundarfirði rigndi samfellt frá því kl. 13 sunnudaginn 10. maí til kl. 4 aðfaranótt þess 12. Á þessu tímabili féllu alls 172 mm, eða með öðrum orðum 172 lítrar á hvern fermetra við stöðina.
Víðar var úrkoman mjög mikil. Formleg met voru þó ekki sett vegna skiptingar úrkomunnar á sólarhringa. Skipt er á milli sólarhringa í úrkomumælingum kl. 9 að morgni. Mest úrkoma nýliðinn sólarhring féll við Ölkelduháls inn af Hveragerði, 98,2 mm, 81,1 mm féll í Andakílsárvirkjun og 78,9 í Grundarfirði. Úrkoman í Grundarfirði mældist hins vegar 135,3 mm frá því á miðnætti aðfaranótt þess 11. og fram að miðnætti aðfaranótt 12. og yfir 170 mm í hrinunni allri. Það er með því mesta sem gerist í maímánuði.
Þetta er mesta sólarhringsúrkoma sem mælst hefur á sjálfvirkri stöð í maí, miðað við að skipt sé milli sólarhringa á miðnætti. Eldra met var sett í Bláfjöllum 11. maí 1998. Mesta sólarhringsúrkoma í maí mældist í Kvískerjum í Öræfum þann 16. 1973, 147,0 mm. Það met var því ekki slegið nú, hvernig sem skipt er á milli sólarhringa. Opinbert met fyrir 12. maí er 94,9 mm og var sett á Nesjavöllum 1998. Þetta er sami úrkomuatburður og skilaði Bláfjallametinu áðurnefnda. Enn er ekki vitað hver úrkoman mældist á Nesjavöllum nú. Úrkoma á sjálfvirkum stöðvum hefur ekki enn verið tekin inn í metaskrár.