Fréttir
Regnbogi yfir Skálholti
Regnbogi yfir Skálholti 4. apríl.

Apríl 2009

Stutt tíðarfarsyfirlit

4.5.2009

Hlýtt var í apríl um land allt, hlýjast að tiltölu suðaustanlands, en einna svalast á Vestfjörðum. Mjög úrkomusamt var um mestallt land og sérlega úrkomusamt víða á Suðurlandi og einnig vestan til á Norðurlandi. Fremur hvassviðrasamt var samfara úrkomunni og slagvirðri með tíðara móti miðað við árstíma.

Meðalhiti í Reykjavík mældist 5,0 stig og er það 2,1 stigi ofan meðallags. Þetta er tíundi hlýjasti apríl frá upphafi samfelldra mælinga í Reykjavík (1870). Á Akureyri var meðalhitinn 3,5 stig og er það 1,9 stigi ofan meðallags. Á Höfn í Hornafirði var meðalhitinn 5,7 stig og er það 2,9 stigum yfir meðallagi. Á Hveravöllum varð meðalhitinn -0,7 stig og er það 2,7 stigum yfir meðallagi.

Hitayfirlit

stöð hiti (°C) vik (°C) röð af
Reykjavík 5,0 2,1 10 139
Stykkishólmur 3,1 1,8 32 164
Bolungarvík 1,7 1,0 36 112
Akureyri 3,5 1,9 21 128
Egilsstaðir 3,2 2,0 13 60
Dalatangi 3,3 1,9 10 71
Höfn í Hornaf. 5,7 2,9
Stórhöfði 5,3 1,9 9 113
Hveravellir -0,7 2,7 5 44


Úrkoma í Reykjavík mældist 100 mm og er það um 70% umfram meðallag, á Akureyri mældist úrkoman 27 mm og er það um 20% undir meðallagi.

Met

Nokkur mánaðarúrkomumet féllu í mánuðinum. Úrkoman á Kvískerjum mældist 523,7 mm og hefur ekki mælst meiri á íslenskri veðurstöð í aprílmánuði. Eldra met var sett á Kvískerjum í apríl 1984, en þá varð heildarúrkoma mánaðarins 520,7 mm, lítillega minni en nú. Aprílúrkomumet voru sett á fleiri stöðvum, þeirra merkust eru nýtt met í Vestmannaeyjum, en þar hefur verið mælt frá 1881, og á Eyrarbakka þar sem einnig hefur verið mælt frá 1881, en með nokkrum hléum. Met var sett í Vík í Mýrdal (mælt frá 1926) og á allmörgum stöðvum á vestanverðu Norðurlandi þar sem mælt hefur verið í 5 til 15 ár.

Snjólétt var í mánuðinum og aldrei varð alhvítt í Reykjavík, það gerist u.þ.b. fimmta hvert ár að meðaltali, en síðast fyrir tveimur árum. Alhvítir dagar á Akureyri voru 5 og er það 6 dögum færri en í meðalári. Enn snjóléttara var þá á Akureyri, bæði í fyrra og hitteðfyrra.

Sólskinsstundir mældust 139 í Reykjavík og er það í meðallagi. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 82 og er það 48 stundum undir meðallagi. Svo lítið sólskin hefur ekki mælst á Akureyri í apríl síðan 1992.

Hæsti hiti mánaðarins mældist á Möðruvöllum í Hörgárdal þann 29., 15,9 stig, sama dag fór hiti í 15,1 stig á mönnuðu stöðinni á Torfum í Eyjafirði.

Lægsti hiti mánaðarins mældist -14,3 stig við Hágöngur þann 8. og við Setur þann 12. Mest frost í byggð mældist í Svartárkoti þann 5., -13,7 stig.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica