Apríl 2009
Stutt tíðarfarsyfirlit
Hlýtt var í apríl um land allt, hlýjast að tiltölu suðaustanlands, en einna svalast á Vestfjörðum. Mjög úrkomusamt var um mestallt land og sérlega úrkomusamt víða á Suðurlandi og einnig vestan til á Norðurlandi. Fremur hvassviðrasamt var samfara úrkomunni og slagvirðri með tíðara móti miðað við árstíma.
Meðalhiti í Reykjavík mældist 5,0 stig og er það 2,1 stigi ofan meðallags. Þetta er tíundi hlýjasti apríl frá upphafi samfelldra mælinga í Reykjavík (1870). Á Akureyri var meðalhitinn 3,5 stig og er það 1,9 stigi ofan meðallags. Á Höfn í Hornafirði var meðalhitinn 5,7 stig og er það 2,9 stigum yfir meðallagi. Á Hveravöllum varð meðalhitinn -0,7 stig og er það 2,7 stigum yfir meðallagi.
Hitayfirlit
stöð | hiti (°C) | vik (°C) | röð | af |
Reykjavík | 5,0 | 2,1 | 10 | 139 |
Stykkishólmur | 3,1 | 1,8 | 32 | 164 |
Bolungarvík | 1,7 | 1,0 | 36 | 112 |
Akureyri | 3,5 | 1,9 | 21 | 128 |
Egilsstaðir | 3,2 | 2,0 | 13 | 60 |
Dalatangi | 3,3 | 1,9 | 10 | 71 |
Höfn í Hornaf. | 5,7 | 2,9 | ||
Stórhöfði | 5,3 | 1,9 | 9 | 113 |
Hveravellir | -0,7 | 2,7 | 5 | 44 |
Úrkoma í Reykjavík mældist 100 mm og er það um 70% umfram meðallag, á Akureyri mældist úrkoman 27 mm og er það um 20% undir meðallagi.
Met
Nokkur mánaðarúrkomumet féllu í mánuðinum. Úrkoman á Kvískerjum mældist 523,7 mm og hefur ekki mælst meiri á íslenskri veðurstöð í aprílmánuði. Eldra met var sett á Kvískerjum í apríl 1984, en þá varð heildarúrkoma mánaðarins 520,7 mm, lítillega minni en nú. Aprílúrkomumet voru sett á fleiri stöðvum, þeirra merkust eru nýtt met í Vestmannaeyjum, en þar hefur verið mælt frá 1881, og á Eyrarbakka þar sem einnig hefur verið mælt frá 1881, en með nokkrum hléum. Met var sett í Vík í Mýrdal (mælt frá 1926) og á allmörgum stöðvum á vestanverðu Norðurlandi þar sem mælt hefur verið í 5 til 15 ár.
Snjólétt var í mánuðinum og aldrei varð alhvítt í Reykjavík, það gerist u.þ.b. fimmta hvert ár að meðaltali, en síðast fyrir tveimur árum. Alhvítir dagar á Akureyri voru 5 og er það 6 dögum færri en í meðalári. Enn snjóléttara var þá á Akureyri, bæði í fyrra og hitteðfyrra.
Sólskinsstundir mældust 139 í Reykjavík og er það í meðallagi. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 82 og er það 48 stundum undir meðallagi. Svo lítið sólskin hefur ekki mælst á Akureyri í apríl síðan 1992.
Hæsti hiti mánaðarins mældist á Möðruvöllum í Hörgárdal þann 29., 15,9 stig, sama dag fór hiti í 15,1 stig á mönnuðu stöðinni á Torfum í Eyjafirði.
Lægsti hiti mánaðarins mældist -14,3 stig við Hágöngur þann 8. og við Setur þann 12. Mest frost í byggð mældist í Svartárkoti þann 5., -13,7 stig.