Fréttir
smámynd af skipuriti
Smámynd af skipuriti Veðurstofu Íslands frá 1. janúar 2009.

Nýtt skipurit og nýir stjórnendur

16.1.2009

Nýtt skipurit tók gildi 1. janúar 2009 fyrir Veðurstofu Íslands í kjölfar skipulagsbreytinga við sameiningu Veðurstofu Íslands og Vatnamælinga Orkustofnunar.

Eftirtaldir aðilar hafa verið ráðnir í nýjar stöður:

  • Yfirverkefnisstjóri rannsókna, dr. Kristín S. Vogfjörð

Kristín er með doktorspróf í jarðeðlisfræði með jarðskjálftafræði sem sérsvið. Hún hefur m.a. unnið hjá Jarðeðlisfræðideild Orkustofnunar og frá árinu 2000 hjá Veðurstofu Íslands og þar af sem deildarstjóri rannsókna síðastliðin fimm ár. Í störfum sínum hefur Kristín verið virkur stjórnandi og þátttakandi í innlendum og erlendum rannsóknarverkefnum og skrifað fjölda fræðigreina.

  • Yfirverkefnisstjóri náttúruvár, dr. Sigrún Karlsdóttir

Sigrún er með doktorspróf í veðurfræði með loftefnafræði sem sérgrein. Hún hefur m.a. unnið sem sérfræðingur og kennari við jarðeðlisfræðideild háskólans í Osló, veðurfræðingur við Veðurstofu Íslands og sem deildarstjóri spádeildar við sömu stofnun frá 2004. Auk þessa hefur Sigrún skrifað fjölda fræðigreina.

  • Framkvæmdastjóri Eftirlits og spár, Theodór Freyr Hervarsson

Theodór lauk meistaragráðu í veðurfræði við háskólann í Bergen árið 2001. Hann hefur m.a. verið veðurathugunarmaður á flugvellinum Flesland og veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands. Síðastliðin tvö ár hefur Theodór verið verkefnastjóri veðurþjónustu og flugveðurþjónustu við stofnunina.

  • Framkvæmdastjóri Úrvinnslu og rannsókna, dr. Jórunn Harðardóttir

Jórunn er með doktorspróf í jarðfræði en þar lagði hún sérstaka áherslu á kvarterjarðfræði og veðurfarsfræði. Hún hefur m.a. unnið hjá hinum ýmsu háskólastofnunum sem jarðfræðingur og sem kennari. Árið 2000 hóf hún störf hjá Orkustofnun sem fagstjóri. Síðan þá hefur Jórunn starfað m.a. sem yfirverkefnisstjóri fagverkefna, sviðsstjóri umhverfisrannsókna og upplýsingatækni og nú síðast sem forstöðumaður Vatnamælinga. Jórunn hefur skrifað fjölda fræðigreina ásamt því að vera virk í skipulagningu alþjóðlegra ráðstefna.

  • Framkvæmdastjóri Athugana og tækni, Óðinn Þórarinsson

Óðinn er með C.Sc. í rafmagnsverkfræði við Háskóla Íslands. Hann hefur starfað m.a. sem verkfræðingur og sem kennari við verkfræðideild Verkfræðistofnunar Háskóla Íslands og síðastliðin tvö ár sem sviðsstjóri vatnamælingakerfa hjá Vatnamælingum Orkustofnunar. Óðinn hefur skrifað fræðigreinar á sínu sviði.

  • Gæðastjóri, Barði Þorkelsson

Barði er jarðfræðingur að mennt og hefur starfað lengi á Veðurstofunni að margvíslegum verkefnum. Ásamt fleirum hefur hann komið á því gæðakerfi sem þegar er við lýði.

Hin nýja Veðurstofa Íslands býður þetta ágæta fólk velkomið til nýrra starfa á nýju ári.

Starfsemin í Reykjavík fer nú fram á tveimur stöðum, bæði á Bústaðavegi 9 og á Grensásvegi 9, en starfsstöðvar eru einnig á Keflavíkurflugvelli og á Ísafirði. Fjöldi starfsmanna Veðurstofunnar er rúmlega 120 eftir sameiningu. Að auki starfar fjöldi manns við vöktun og eftirlit fyrir Veðurstofuna víða um land.

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica