Tíðarfar í nóvember 2008
- stutt yfirlit ásamt haustyfirliti
Tíðarfar var talið hagstætt lengst af. Hlýjast var að tiltölu inn til landsins en á Vestfjörðum var hiti aðeins rétt ofan meðallags. Síðustu dagar mánaðarins voru kaldir um land allt. Meðalhiti í Reykjavík var 2,8 stig og er það 1,7 stigum ofan meðallags. Á Akureyri var meðalhitinn 1,1 stig, en það er 1,5 stigum ofan meðallags. Á Höfn var meðalhiti 2,5 stig og er það 0,6 stigum yfir meðallagi. Á Hveravöllum var meðalhitinn -2,9 stig, 1,9 stigum yfir meðaltalinu. Víðast hvar á landinu var nóvember í fyrra hlýrri en nú nema suðaustanlands, þar var hlýrra núna.
Í Reykjavík mældist úrkoman 93 mm og er það 28 prósent yfir meðallagi og 20 mm minna en í nóvember í fyrra. Á Akureyri mældist úrkoman 15 prósent undir meðallagi, eða 46 mm. Úrkoma á Höfn í Hornafirði mældist 71 mm, eða 70 prósent meðalúrkomu.
Í Reykjavík mældust 30 sólskinsstundir í nóvember og er það 9 stundum undir meðallagi. Á Akureyri urðu sólskinsstundirnar 7 og er það 8 stundum undir meðallagi. Sólskinsstundir hafa ekki mælst jafnfáar í nóvember á Akureyri síðan 1997 en þá voru þær þrjár.
Meðalhiti (°C), frávik og röð á nokkrum stöðvum. Eins og sjá má var þetta 10. hlýjasti nóvember á Hveravöllum:
stöð | hiti | frávik | röð | af |
Reykjavík | 2,7 | 1,6 | 29 | 143 |
Stykkishólmur | 2,2 | 1,3 | 42 | 165 |
Bolungarvík | 0,9 | 0,1 | 54 | 112 |
Akureyri | 1,1 | 1,5 | 35 | 128 |
Egilsstaðir | 0,6 | 1,3 | 23 | 61 |
Dalatangi | 2,8 | 1,0 | 27 | 71 |
Höfn í Hornaf. | 2,5 | 0,6 | x | x |
Stórhöfði | 3,3 | 0,8 | 48 | 132 |
Hveravellir | -2,9 | 1,9 | 10 | 45 |
Hæsti hiti í mánuðinum mældist í Kvískerjum í Öræfum þann 18., 18,1°C, en á mannaðri stöð á Skjaldþingsstöðum þann 15., 14,2°C. Lægstur varð hitinn á Brúarjökli þann 30., -18,3°C, en lægstur í byggð í Möðrudal þann 21. -15,8°C. Á mannaðri stöð komst hitinn á Grímsstöðum á Fjöllum niður í -15,6°C þann 15.
Haustið (október og nóvember)
Hiti var mjög nærri meðallagi, október var nokkuð kaldari en í meðalári, en hiti í nóvember var ofan við meðaltalið. Nóvember er venjulega um 3 stigum kaldari en október, en nú munaði nær engu á mánuðunum inn til landsins og á Hveravöllum var nóvember hlýrri en október. Mestur munur á mánuðunum var á Vestfjörðum, en þar var hiti í nóvember nú aðeins 0,1 stigi ofan meðallags. Haustúrkoman á landinu var ekki fjarri meðallagi.