Fréttir
Forsíða Meteorologisk årbog
Forsíða Meteorologisk Aarbog árið 1873.

Veður frá 1873 á vefnum

Árbækur skannaðar

2.12.2008

Hinn 1. desember voru veðurathuganir á Íslandi allt frá árinu 1873 til 1923 gerðar almenningi aðgengilegar á vefnum timarit.is.

Tímaritin Meteorologisk Aarbog, Del II, Bilandene, frá árunum 1873 til 1919 (47 árbækur) og Íslensk veðurfarsbók 1920 til 1923 voru skönnuð á Landsbókasafni Íslands - Háskólabókasafni að beiðni Veðurstofu Íslands.

Meteorologisk Aarbog, Bilandene, hefur, eins og titillinn gefur til kynna, að geyma veðurathuganir frá veðurstöðvum í þeim löndum sem heyrðu undir danska konungsveldið; Ísland, Grænland, Færeyjar og Dönsku-Vesturindíur (St. Croix).

Árið 1873 voru eingöngu prentaðar daglegar veðurathuganir úr Berufirði og frá Stykkishólmi en strax á árinu 1874 bættist Grímsey við og sömuleiðis loftþrýstiathuganir á Akureyri. Athuganir frá Vestmannaeyjum bættust við árið 1884 og Grímsstöðum á Fjöllum 1912. Á stöðvunum voru gerðar þrjár athuganir á dag og eru þær allar prentaðar í árbókunum. Þar má einnig finna mánaðameðaltöl og aðrar upplýsingar frá fjölmörgum öðrum stöðvum.

Allar töflur eru handskrifaðar frá 1874 til og með 1912.

Árið 1920 tók Veðurstofa Íslands (veðurfræðideild Löggildingarstofunnar) til starfa. Tóku Íslendingar þá við útgáfu veðurathugananna sem birtust í Íslenskri veðurfarsbók. Þá voru veðurstöðvarnar orðnar 20 talsins. Í maí 1920 bættust athuganir í Reykjavík við þær sem nefndar voru að ofan.

Íslensk veðurfarsbók kom út í fjögur ár en árið 1924 hóf tímaritið Veðráttan göngu sína sem haldist hefur óslitið síðan þá. Veðráttan 1924-1997 var skönnuð og gerð aðgengileg á vefnum timarit.is í apríl 2007.

Nánari upplýsingar um Meteorologisk Aarbog og Íslenska veðurfarsbók má lesa í sérstökum fróðleikspistli.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica