Sumarið 2008
- stutt tíðarfarsyfirlit
Sumarið (júní til september) var mjög hagstætt um nær allt land. Það fór þó nokkuð hægt af stað við norðaustur- og austurströndina þar sem fremur kalt var í júní. Meðalhiti sumarsins í Reykjavík var 11,0 stig. Ívið hlýrra var sumurin 2003, 1941 og 1939. Sumarið telst því hið fjórða hlýjasta í Reykjavík frá upphafi samfelldra mælinga. Á Akureyri var meðalhiti sumarsins 10,7 stig, það dugir í 9. sæti hlýrra sumra. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 10,5 stig, ámóta og 2003 og 2004 og endaði hitinn í sjötta sæti hlýrra sumra. Mikla hitabylgju gerði víða um land síðustu viku júlímánaðar.
Maímánuður var með hlýjasta móti og ef hann er talinn með sumrinu lendir það í öðru sæti bæði í Reykjavík og Stykkishólmi, á eftir 1939. Á Akureyri er sumarið það fjórða hlýjasta ef maí er talinn með.
Árið, það sem af er (janúar til september), er hið áttunda hlýjasta frá upphafi mælinga í Stykkishólmi 1845.
Mjög þurrt var víða um land fram eftir sumri, en þegar á leið gekk til mikilla rigninga. Í Reykjavík hefur ekki rignt jafnmikið yfir sumarið síðan 1984, en úrkomumagn sumarsins í fyrra var þó nærri því jafnmikið. Á Akureyri var sumarið það þurrasta frá 2001, en magnið telst ekki til neinna tíðinda.
Sólskinsstundir sumarsins mældust 786 í Reykjavík og hafa ekki verið jafnmargar frá 1957, þetta kemur sumrinu í 7. sæti reykvískra sólarsumra. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 688 og hafa ekki verið jafnmargar frá sumrinu 2000. Sumarið er það fjórða sólríkasta frá upphafi mælinga á Akureyri.