Fréttir
Haustganga
Gönguhópur við Köldukvísl.

Tíðarfar í september 2008

Hlýr og votviðrasamur mánuður

1.10.2008

Hlýtt var í september, meðalhitinn í Reykjavík var 9,4 stig, eða 2,1 stigi yfir meðallagi. Nokkru hlýrra var fyrir tveimur árum.

Á Akureyri var meðalhitinn 9,8 stig og er það 3,4 stigum yfir meðallagi. Svo hlýtt hefur ekki verið í september á Akureyri síðan 1996. Á Höfn í Hornafirði var meðalhitinn 9,6 stig (1,9 stig yfir meðallagi).

Meðalhiti í Stykkishólmi var 9,3 stig, eða 2,5 stig yfir meðallagi. Meðalhiti í Bolungarvík var 9,2 stig (3,1 stigi ofan meðallags) og sá hæsti frá 1996. Á Dalatanga var meðalhitinn 9,2 stig (2,6 stigum ofan meðallags) og 9,4 stig á Egilsstaðaflugvelli. Á þessum fjórum stöðvum var mánuðurinn sá hlýjasti frá 1996 eins og á Akureyri.

Meðalhiti á Stórhöfða var 9,4 stig og er það 2,1 stigi ofan meðallags eins og í Reykjavík. Á Hveravöllum var meðalhitinn 4,9 stig.

Mjög úrkomusamt var um allt sunnan- og vestanvert landið og var um metúrkomu að ræða á fáeinum stöðvum - nánara uppgjör á því kemur síðar. Mjög mikil úrkoma var einnig í september í fyrra.

Nú mældist úrkoman í Reykjavík 174 mm og er það aðeins 2 mm undir metinu frá 1887. Þetta er meir en tvöföld meðalúrkoma í september. Úrkomudagar í Reykjavík voru 25.

Á Akureyri mældist úrkoman 33 mm og er það um 15% undir meðallagi, svo þurrt var síðast 2001. Á Höfn í Hornafirði mældist úrkoman 294 mm og er það nærri þreföld meðalúrkoma.

Í Stykkishólmi var met slegið, þar mældist úrkoma nú 204 mm. Eldra met var 166 mm, frá árinu 1933, en úrkoma hefur verið mæld í Stykkishólmi frá því í september 1856.

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 113 og er það 12 stundum undir meðallagi. Sólskinsstundirnar voru mun færri í fyrra.

Á Akureyri mældust 108 sólskinsstundir og er það 22 umfram meðallag. Fleiri sólskinsstundir mældust á Akureyri í september 2003.

Hæsti hiti á sjálfvirkri stöð í mánuðinum mældist á Raufarhöfn þ.17. 20,6°C. Sama dag mældust 20,2°C á mönnuðu stöðinni á sama stað.

Lægstur varð hitinn á Brúarjökli þ.30., -7,3°C. Lægsti hiti í byggð mældist á sjálfvirku stöðinni í Möðrudal þ.5., -4,2°C. Þ.30. mældist lægsti hiti á skeytastöð, -3,8°C á Grímsstöðum á Fjöllum.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica