Fréttir
Vísindavaka RANNÍS
Gestir á bás Veðurstofunnar á Vísindavöku RANNÍS.
1 2 3 4 5 6

Veðurstofan á Vísindavöku

29.9.2008

Veðurstofa Íslands var að sjálfsögðu meðal sýnenda á Vísindavöku RANNÍS föstudaginn 26. september. Margir sóttu Vísindavökuna og var bás Veðurstofunnar vinsæll.

Gestum gafst kostur á að skoða myndskeið frá gervihnöttum og veðursjá af leifum fellibylsins Ike er hann fór yfir Íslands ásamt öðrum vindakerfum. Í fróðleiksgrein eftir Trausta Jónsson má lesa greinargott yfirlit um ferðir Ike og annarra veðurkerfa sem sameinuðust í óveðri er gekk yfir Ísland 16. og 17. september síðastliðinn.

Sýnt var myndband af snjóflóðum sem vísindamenn komu af stað á Vestfjörðum til að rannsaka ferli og eiginleika snjóflóða.

Mjög margir spreyttu sig á því að blása í vindmæli og skráðu svo „vindstyrk“ sinn. Á síðustu vísindavöku var metið 13,8 m/sek. en það var slegið glæsilega með 14,3 m/sek.

Þá gátu gestir framkallað „jarðskjálfta“ með því að stappa eða hoppa framan við jarðskjálftamæli. Sást hreyfingin á skjá sem tengdur var við mælinn.

Jarðskjálftunum í vor og fleiri stórum skjálftum voru gerð skil í fræðilegri sýningu.

Veðurspár á Google Earth vöktu athygli margra enda margir Íslendingar sem „gúgla“ nánast allt milli himins og jarðar.

Fólk gat skoðað veðurspár á ýmsu formi á vef Veðurstofunnar, m.a. veðurþáttaspárnar sem æ fleiri nýta sér þar sem þær eru á margan hátt skýrari en almenna spákortið.

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica