Fréttir
Sólmyrkvi
Almyrkvi á sólu. / Total eclipse of the sun.

Sólmyrkvi 1. ágúst 2008

31.7.2008

Sólmyrkvi verður föstudaginn 1. ágúst. Sólmyrkvar verða þegar tungl gengur milli jarðar og sólar og skyggir á sólina frá jörðu séð. Almyrkvi verður aðeins á afmörkuðu svæði þar sem skuggi tungls hylur sólina að fullu. Hringmyrkvi kallast það þegar tungl nær ekki að hylja sólina algerlega en fer þó samt fyrir sólkringluna miðja. Deildarmyrkvi er þegar tungl hylur hluta sólarinnar en er þó ekki fyrir miðri sólkringlunni.

Sólmyrkvinn 1. ágúst 2008 er almyrkvi frá nyrsta hluta Kanada og liggur leið hans um norðanvert Grænland, Síberíu og Mongólíu og endar í Kína. Í Reykjavík sést deildarmyrkvi sem hefst kl. 08:15 og lýkur kl. 10:09. Þegar myrkvinn er mestur, kl. 09:11, skyggir tunglið á 59% af þvermáli sólarinnar. Á Akureyri stendur myrkvinn frá kl. 08:17 til kl. 10:14 og þar skyggir tunglið á 62% af þvermáli sólarinnar.

Varast ætti að horfa beint í sólina án þess að nota mjög dökkt gler eða filmu. Öruggast er að láta sjónauka varpa mynd á hvítt spjald og stilla sjónaukann þannig að myndin verði skörp.

Lítill deildarmyrkvi varð síðast á Íslandi 29. mars 2006 og varð hans einkum vart á Austurlandi þar sem 5% af þvermáli sólar skyggðust. Stærri deildarmyrkvar urðu 3. október 2005 (50% af þvermáli sólar huldist) og 11. ágúst 1999 (65% af þvermáli sólar myrkvaðist).

Síðast varð hringmyrkvi á sólu á Íslandi aðfaranótt 31. maí 2003 og sást hann best á norðausturhorni landsins vegna lágrar stöðu sólar á himni þegar myrkvinn varð. Næsti hringmyrkvi á sólu mun ekki sjást á Íslandi fyrr en árið 2048.

Almyrkvi verður næst á Íslandi 12. ágúst árið 2026.

Heimild: Almanak Háskóla Íslands

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica