Fréttir
Mælireitur  og hús Veðurstofunnar
Við Bústaðaveg 9 í Reykjavík.

Embætti forstjóra Veðurstofu Íslands

7.7.2008

Umhverfisráðuneytið hefur auglýst laust til umsóknar embætti forstjóra nýrrar stofnunar sem verður til við sameiningu Veðurstofu Íslands og Vatnamælinga Orkustofnunar. Hin nýja stofnun mun bera nafn Veðurstofu Íslands. Lög um hina nýju stofnun öðlast gildi við næstu áramót en gert er ráð fyrir að forstjóri hefji störf hinn 1. ágúst næstkomandi til að undirbúa starfsemi hinnar nýju stofnunar. Umsóknarfrestur er til og með 11. júlí.

Helstu verkefni forstjóra Veðurstofu Íslands verða:

  • Stjórnun og stefnumótun.
  • Ábyrgð á rekstri.
  • Áætlanagerð.
  • Starfsmannamál.
  • Samskipti við stjórnvöld og hagsmunaaðila.

Menntunar- og hæfniskröfur:

  • Háskólapróf á sviði sem nýtist í starfi stofnunarinnar.
  • Stjórnunarreynsla.
  • Leiðtogahæfileikar og hæfni til að hvetja til árangurs.
  • Frumkvæði og metnaður til að sýna árangur í starfi og kraftur til að hrinda verkefnum í framkvæmd.
  • Skipuleg og sjálfstæð vinnubrögð.

Veðurstofa Íslands tekur við verkefnum af forvera sínum og Vatnamælingum Orkustofnunar og sem ný stofnun snúa viðfangsefni hennar að eðlisþáttum jarðarinnar, þ.e. lofti, vatni, snjó og jöklum, jörð og hafi. Með nýrri stofnun um verkefni Veðurstofu og Vatnamælinga er ekki aðeins stefnt að samrekstri núverandi kerfa, heldur er einnig stefnt að því að móta hlutverk stofnunarinnar með nýjum og heildstæðum hætti, þannig að tryggt sé að starfssvið og verkefni verði samþætt með það að markmiði að efla starfsemina.

Helsta hlutverk stofnunarinnar er að: afla, varðveita, vinna úr upplýsingum og stunda rannsóknir og að miðla upplýsingum til og þjónusta notendur um þá eðlisþætti jarðar sem varða íslenska hagsmuni og samfélagslegt öryggi gagnvart náttúruvá.

Hjá nýrri stofnun Veðurstofu Íslands mun starfa öflugur hópur fagmanna og vísindamanna og má gera ráð fyrir að starfsmannafjöldi verði um 120.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica