Tíðarfar í janúar 2008
- stutt yfirlit
Veðurlag í janúar var nærri meðallagi á landinu. Umhleypingasamt var og þó hvergi væri mikill snjór var hann samt til trafala við samgöngur.
Meðalhiti í Reykjavík var -0,2 stig og er það 0,3 stigum ofan við meðallag. Á Akureyri var meðalhitinn -1,5 stig, 0,7 stigum ofan meðallags. Hiti var einnig ofan meðallags á Hveravöllum (0,4°C yfir), í Vestmannaeyjum (0,1°C yfir), í Bolungarvík (0,7°C yfir) og á Egilsstöðum (0,5°C yfir), en var lítillega undir því á Höfn í Hornafirði (-0,2°). Þetta er ekki fjarri því sem var í fyrra.
Úrkoma í Reykjavík mældist 78 mm og er það í meðallagi. Á Akureyri mældist úrkoman 40 mm og er það 72% meðalúrkomu í janúar. Á Höfn í Hornafirði mældist meðalúrkoman 146 mm, eða 11% umfram meðallag.
Sólskinsstundir mældust aðeins 12 í Reykjavík og er það innan við helmingur þess sem gerist að meðaltali. Oft mælist sólskinsstundafjöldi í Reykjvík minni en þetta í janúar. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 9 og er það í meðallagi.
Hæsti hiti í mánuðinum mældist 12,8°C á Siglufirði þann 1. og í Ólafsfirði þann 3. Hæstur hiti á mannaðri stöð mældist á Sauðanesvita hinn 1., 11,9°C.
Lægsti hiti mánaðarins mældist í Árnesi þann 19., -22,3°C, en lægsti hiti á mannaðri stöð mældist í Stafholtsey, -18,0°C þann 20.
Í Reykjavík var alhvítt 14 daga, 2 dögum fleiri en að meðaltali 1961-1990.
Nokkur illviðri gengu yfir landið, verstu veðrin gerði á nýársnótt og síðan 22., 27. og 31. Minniháttar tjón varð í þessum veðrum og töluverðar samgöngutruflanir.