Fréttir
Haustlitir á Þingvöllum
Haustlitir á Þingvöllum 25. september 2007.

Tíðarfar í september 2007

- ásamt fréttum af sumrinu 2007

2.10.2007

Mánuðurinn var óvenju úrkomusamur um sunnan- og vestanvert landið og úrkoma var einnig yfir meðallagi norðanlands. Hiti var í ríflegu meðallagi.

Meðalhiti í Reykjavík mældist 7,9 stig og er það 0,5 stigum ofan meðallags. Á Akureyri var meðalhitinn 7,2 stig, eða 0,8 stigum yfir meðallagi. Mun hlýrra var í september í fyrra, en í hittiðfyrra var nokkru kaldara. Á Hveravöllum var meðalhitinn 3,2 stig og er það 0,8 stigum ofan við meðallag. Í Höfn í Hornafirði var meðalhitinn 7,4 stig.

Úrkoman í Reykjavík mældist 163 mm og er það meir en tvöföld meðalúrkoma. Úrkoma í september hefur ekki orðið meiri í Reykjavík síðan samfelldar mælingar hófust þar 1920. Úrkoma var einnig mæld í Reykjavík frá 1884 til 1907, þá mældist einu sinni meiri úrkoma í september, 176 mm árið 1887. Þá dreifðist úrkoman ójafnara á mánuðinn en nú, en nú voru þurrir dagar aðeins fimm. Úrkoma var einnig mikil á Akureyri, þar mældust 60 mm og er það um 50% umfram meðallag. Meiri úrkoma var á Akureyri í september 2005. Á Höfn í Hornafirði mældist úrkoman 154 mm.

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 85 og er það um 40 stundir undir meðallagi. Sólskinsstundir hafa þó alloft verið færri í september í Reykjavík, síðast 2002.

Hæsti hiti mánaðarins mældist á sjálfvirku stöðinni á Skjaldþingsstöðum aðfaranótt þess 4., 22,8 stig, en hæsti hiti á mannaðri stöð mældist á Sauðanesvita þann 27., 20,4 stig. Lægsti hiti mánaðarins mældist á Brúarjökli þann 25., -10,8 stig, en í byggð mældust lægst -4,0 stig í Árnesi aðfaranótt 28.

Dagana 15. og 16. festi snjó á stöku stað um landið sunnanvert, en það er óvenju snemma. Mest mældist snjódýptin í Snæbýli í Vestur-Skaftafellssýslu 10 cm að morgni þess 16. Snjór er að jafnaði mun algengari norðanlands en sunnan í september. Í Svartárkoti í Bárðardal var alhvítt að morgni níu daga í mánuðinum, mest 5 cm. Alhvítt var tvo morgna við Skeiðsfossvirkjun og einn morgunn á Vöðlum í Önundarfirði.

Að loknu sumri 2007

Á Veðurstofunni er september samkvæmt venju talinn sumarmánuður. Sumarið 2007 var harla óvenjulegt. Framan af var óvenjuþurrt og bjart veður um landið sunnan- og vestanvert, en um miðjan ágúst skipti rækilega um veðurlag, þannig að sumarúrkoman í heild er sú mesta í Reykjavík síðan 1984.

Á Akureyri hefur veðráttan verið jafnari, heildarúrkoma sumarsins nánast nákvæmlega í meðallagi. Sólskinsstundir í sumar mældust 711 í Reykjavík og er það rúmum hundrað stundum umfram meðallag. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 620 og er það rúmum 60 stundum umfram meðallag.

Meðalhiti sumarsins í Reykjavík var 10,6 stig og er það 1,3 stigum umfram meðallag. Þetta var 10.-11. hlýjasta sumar frá upphafi mælinga í Reykjavík, jafnhlýtt var í fyrra en sumurin 2003 og 2004 voru nokkru hlýrri. Á Akureyri var meðalhiti sumarsins 9,7 stig og er það 0,7 stigum ofan meðallags. Talsvert hlýrra var á Akureyri í fyrrasumar.

Trausti Jónsson





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica