Fréttir
Skjálftavirkni á Reykjanesskaganum frá 1. janúar 2022 til 25. apríl 2022. Eins og sjá má á kortinu hefur skjálftavirknin verið bundin við nokkur svæði þar á meðal Reykjanestá, svæði norður af Grindavík, Fagradalsfjall og Kleifarvatn. (Kort úr skjálftavefsjá Veðurstofunnar ).

Mikilvægt að vakta áfram virkni á Reykjanesskaganum

Mælingar hafa sýnt kvikusöfnun á miklu dýpi en engar vísbendingar eru um að kvika sé að nálgast yfirborð

27.4.2022

Frá því að gosinu við Fagradalsfjall lauk hefur skjálftavirkni á Reykjanesskaganum verið talsverð og það sem af er þessu ári hafa um 5400 skjálftar mælst. Skjálftavirknin hefur verið bundin við nokkur svæði þar á meðal Reykjanestá, svæði norður af Grindavík, Fagradalsfjall og Kleifarvatn. Alls hafa mælst 11 skjálftar af stærð 3 eða stærri. Sá stærsti, 3.9 að stærð, mældist 12. apríl um 2.5km NA af Sýrfellshrauni. Sá skjálfti var hluti af skjálftahrinu NA af Reykjanestá, en alls mældust um 450 skjálftar í þeirri hrinu.

Skjálftavirknin á Reykjanesskaganum síðustu fjóra mánuði er talsvert minni en mældist í upphafi óróatímabils sem hófst á Reykjanesskaganum um miðjan desember 2019. Á fyrstu fjórum mánuðum þess tímabils mældust um 9600 skjálftar og voru 37 þeirra af stærð 3 og 3 yfir 4 að stærð.

Vísbendingar um kvikusöfnun á talsverðu dýpi

GPS mælanetið á Reykjanesskaganum sem nemur færslur á yfirborði jarðar sýnir víðátumikið þennslumerki sem bendir til kvikusöfnunnar á > 16 km dýpi austan við Fagradalsfjall. Engar landbreytingar eru merkjanlegar sem  gætu bent til þess að kvika sé að nálgast yfirborðið eins og greint var frá í tengslum við jarðskjálftahrinu við Fagradalsfjall í lok síðasta árs. Nýlegar InSAR gervitunglamyndir eru í samræmi við það sem sést á GPS mælum.

„Það er talsverð áskorun að greina virknina á Reykjanesskaganum“, segir Benedikt G. Ólafsson, sérfræðingur á sviði jarðskorpuhreyfinga á Veðurstofu Íslands. „Á Reykjanesskaganum á sér stað flókin víxlverkun á milli virkni vegna kviku og virkni vegna flekamóta sem getur gert erfitt um vik að greina á milli hvað er hvað. Skjálftahrinur á skaganum hafa oft einkenni hrina sem verða vegna kvikuhreyfinga þó þær séu það ekki og það gæti átt við í tilfelli hrinunnar á Reykjanestá þó svo að ekki sé hægt að fullyrða um slíkt. Það eru allavega  engar sjáanlegar landbreytingar sem benda til kvikuhreyfinga vestast á nesinu“, segir Benedikt.

Hættumat eykur getuna til að bregðast rétt við atburðum

„Það er ljóst að ennþá er talsverð virkni á öllum Reykjanesskaganum og í raun ekki hægt að útiloka að virknin geti aukist, en hvar og hvenær er erfitt að segja til um nákvæmlega“, segir Sara Barsotti, fagstjóri eldfjallavár á Veðurstofunni. „Það er þensla í gangi sem bendir til kvikusöfnunar og á meðan að hún er í gangi þurfum við að vera á tánum og vera tilbúin fyrir ákveðnar sviðsmyndir ef til eldgoss kemur. Þar getur verið um að ræða eldgos svipuðu því sem við sáum við Fagradalsfjall þar sem talsverð gasmengun fylgdi gosinu. Eins þurfum við að búa okkur undir eldgos nálægt ströndinni, jafnvel neðansjávar, en slíku eldgosi gæti fylgt öskufall“ segir Sara. „Verið er að vinna hættumat og áhættumat fyrir Reykjanesskagann í „Gosvár“ verkefninu þar sem t.d. hefur verið lagt mat á hver áhrif frá öskufalli hafi í byggð og þá til að geta brugðist við slíkum atburði. Í millitíðinni er svæðið vaktað og vísindamenn fylgjast náið með öllum breytingum sem verða á virkninni“, segir Sara að lokum.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica