Fréttir
Vatn
Yfirfall.

Málþing á 70 ára afmæli vatnamælinga

16.11.2017

Veðurstofa Íslands og Íslenska vatnafræðinefndin munu fagna 70 ára afmæli kerfisbundinna vatnamælinga fimmtudaginn 23. nóvember á málþingi um vatnamælingar og tengd málefni. Málþingið verður haldið í sal Veðurstofunnar að Bústaðavegi 7. Það hefst kl. 14:30 og stendur til kl. 17:00. Boðið verður upp á léttar veitingar að þinginu loknu.

Í ár eru liðin 70 ár frá því að kerfisbundnar vatnamælingar hófust á Íslandi. Mikill áhugi ríkti um rannsóknir á vatnsauðlindinni allt frá miðri 19. öld, en árið 1917 skipaði Alþingi nefnd sem vann að lagafrumvarp um vatnamál er leiddi til setningar vatnalaga 1923. Reglubundnar vatnamælingar hófust 1947 á þáverandi Raforkumálaskrifstofu undir stjórn Sigurjóns Rist.

Árið 1967 urðu Vatnamælingar deild á Orkustofnun undir stjórn orkumálastjóra. Stofnunin óx og rannsóknarhlutinn efldist; byrjað var að taka aurburðarsýni og jöklamælingar hófust. Árið 1997 urðu Vatnamælingar fjárhagslega sjálfbær eining sem gerði verksamninga við orkufyrirtæki og opinbera aðila. Hafin var kortlagning flóða og flóðavöktun og gengið var til samstarfs um alþjóðleg rannsóknaverkefni tengdum vatnafræði og loftslagsbreytingum. Starfsemi Vatnamælinga og Veðurstofu Íslands, hinnar eldri, var sameinuð með lögum nr. 70/2008 í nýrri stofnun er sinnir meðal annars verkefnum vatnamælinga og vatnafræðirannsókna.

Íslenska vatnafræðinefndin fer fyrir hönd Íslands með alþjóðasamstarf á sviði vatnafræði innan vébanda Menningarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNESCO. Það eru Veðurstofan og Íslenska vatnafræðinefndin sem standa sameiginlega að málþinginu í tilefni 70 ára afmælisins.

Streymi frá málþinginu.

Dagskrá á pdf-sniði (0,4 Mb) .

dagskrá

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica