Lokaskýrsla ICEWIND verkefnisins
Nýlega kom út lokaskýrsla ICEWIND verkefnisins, IceWind final scientific report - improved forecasts of wind, waves and icing. Útgefandi er vindorkudeild danska tækniháskólans DTU.
Um er að ræða samnorrænt verkefni um vindorku á köldum svæðum sem unnið var að á árunum 2010–2014 og styrkt af Norræna orkusjóðnum. Verkefninu var stýrt af vindorkudeild danska tækniháskólans (DTU) en íslenskir þátttakendur voru Veðurstofa Íslands, Háskóli Íslands, Landsvirkjun og Landsnet.
Íslensku verkefnin sneru annarsvegar að ísingu á Íslandi og kortlagningu svæða þar sem gera mætti ráð fyrir mestum vanda vegna ísingar, og hinsvegar að kortlagningu vindauðlindarinnar og högun vindorku í íslenska orkukerfinu, þ.e. samþættingu vindorku og vatnsorku.
Þessum verkþáttum eru gerð skil í lokaskýrslunni. Í kaflanum um ísingu er fjallað um kortlagningu svæða og skilyrða þar sem ísingar gætir, og um aðferðir til þess að spá fyrir um ísingu þar sem byggt er á útreikningum veðurspálíkana og tölfræðilíkönum. Niðurstaðan er sú að slíkar spár geti aukið framleiðsluöryggi vindorkugarða á svæðum þar sem ísingar gætir.
Í kafla um vindauðlindina á Íslandi er lýst hvernig vindatlas fyrir Ísland var unninn. Að auki var nýtileg orka fyrir nokkur svæði reiknuð sérstaklega. Þá er einnig fjallað um það hvernig árstíðasveifla vindorku (en vindur er mestur að vetri og minni að sumri) getur aukið öryggi orkuframleiðslu frá vatnsorkuverum, en árstíðasveifla vatnsorku er öfug árstíðasveiflu vindorku (þ.e. mest afrennsli á sumrin og minnst á veturna).
Athygli er vakin á vefviðmóti vindatlasins sem er öllum aðgengilegur.