Fréttir
Eldstöðvarnar rúmum mánuði eftir upphaf gossins. Horft til norðurs yfir gosstöðvarnar úr vél Icelandair í aðflugi til Keflavíkur frá Amsterdam síðdegis 27. apríl. (Ljósmynd: Ágúst J. Magnússon)

"Litla gosið" við Fagradalsfjall orðið sex mánaða

19.9.2021

Í dag, 19. september, eru sex mánuður frá upphafi eldgossins í Fagradalsfjalli. Hraunflæðið er metið tiltölulega lítið á mælikvarða eldgosa sem orðið hafa á Íslandi. En vegna  staðsetningar, nálægðar við byggð og aðgengi almennings og vísindamanna að gosstöðvunum, má segja að áhrif gossins og þær áskoranir sem því hafa fylgt hafi orðið meiri en með önnur nýleg gos.

Fyrirboða eldgossins í Fagradalsfjalli varð vart í desember 2019 með mikilli  skjálftavirkni  í og við Þorbjörn sem hafði áhrif á allan Reykjanesskagann. Ástæða skjálftanna var kvika sem var að reyna að brjóta sér leið upp á yfirborðið við Þorbjörn. Það var síðan þann 24. febrúar 2021 sem virknin byrjaði á ný, þegar krafmiklir skjálftar riðu um Reykjanesskagann og sem fundust víða um landið.  Hrinan hófst með skjálfta við Keili sem var 5,7 að stærð og komu tugir þúsunda skjálfta í kjölfarið á næstu vikum.

Mynd1

Mynd 1. Sýnir þróun jarðskjálftanna í kringum Fagradalsfjall frá desmeber 2019 þangað til eldgos hófst. (Graf: Skjálfta-Lísa fengin af vef Veðustofunnar)

Gervihnattamyndir og GPS gögn sýndu að kvikagangur hafði myndast suðvestur af Keili og inn að Fagradalsfjalli (Mynd 2 A&B). Óvíst var hvort kvikan myndi ná upp á yfirborðið.

„Tímabilið áður en eldgosið hófst var mjög stressandi og því fylgdi álag fyrir teymið“ segir Michelle Maree Parks, þegar hún var spurð um þær áskoranir sem urðu á vegi hennar og hvað hún hafði lært af þeim. Michelle er ein af vísindamönnum í aflögunarteymi Veðurstofunnar, sem fylgist meðal annars með landrisi.  „Óróinn hófst í desember 2019 þannig að þarna í mars 2021 höfðum við  þegar verið búin að vinna hörðum höndum í 14 mánuði við vöktun svæðisins. Við vorum stöðugt að uppfæra aflögunarkort frá gervihnöttum og að keyra líkön til að reyna að finna út hvað aflögunin var að segja okkur“ segir Michelle. Það voru þrír kvikugangar undir Svartsengi og annar fyrir neðan Krýsuvík árið 2020. Síðan hóf einn gangur að færa sig í átt að Fagradalsfjalli í lok febrúar 2021. „Það var mjög mikilvægt að geta staðsett hann, hversu djúpt hann var og hversu mikið magn af kviku væri í honum“ segir Michelle. „Þetta þýddi að við þurftum oft að vaka lengi vikurnar fyrir gosið til að útbúa ný líkön. Það sem við lærðum af þessu er að þó að aukning í skjálftavirkni og aflögun geti verið fyrirvari eldgoss þá er það ekki alltaf raunin. Það veltur á því hversu mikil spenna hefur nú þegar verið leyst úr læðingi og á styrkleika skorpunnar“, segir Michelle að lokum.


Mynd2Mynd 2. A) GPS færslur frá stöðinni KRIV í Krísuvík. Bláa línan sýnir byrjun skjálftavirkninnar þann 24.febrúar og rauðalínan táknar byrjun eldgossins þann 19.mars. Grafið sýnir hraða aflögun sem átti sér stað áður en gosið hófst og síðan hæga suðvestur hreyfingu eftir að gosið hófst sem þýðir að sig er í gangi (Graf: Veðurstofa Íslands/Benedikt Gunnar Ófeigsson). B) Sýnir hvar kvikugangurinn hafði myndast. (Mynd: Fengin af vef Veðurstofunnar)

Síðustu dagana fyrir eldgosið var skjálftavirknin með minna móti og höfðu engir skjálftar mælst yfir 4 að stærð, en það hafði ekki gerst frá því að skjálftahrinan hófst. Það má segja að það hafi verið lognið á undan storminum. Þann 19. mars kl 20:45 opnaðist sprunga við Fagradalsfjall sem bauð upp á stórfenglega sjón í kvöldbirtunni. Eldgos var hafið.

Gosmynd---Copy

Mynd 3. Eldgosið nokkrum klukkustundum eftir að kvikan náði upp á yfirborðið en þetta var fyrsta ljósmyndin sem náðist af gosinu, hún var tekin kl. 23:03. (Ljósmynd: Veðurstofa Íslands/Kristín Jónsdóttir)

Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvöktunar hjá Veðurstofu Íslands, segir það hafa reynst mikil áskorun að spá fyrir um hvort og hvenær gos myndi hefjast. „Það kom á óvart að það dróg úr skjálftavirkni í aðdraganda eldgossins og í raun voru merkin um að gos myndi hefjast þennan dag afar lítil“ segir Kristín þegar að hún rifjar upp atburðarás föstudagins fyrir sex mánuðum. „Helst að það mældust nokkrir grunnir skjálftar sem við skiljum nú að voru til marks um að kvikan lá grunnt“, segir Kristín.

Mynd4

Mynd 4. Eftirlitssalur Veðurstofunnar rétt eftir miðnætti á fyrsta kvöldi eldgossins. Kristín Vogfjörð, hópstjóri jarðar og eldgosahóps situr fyrir aftan Sigurdísi Björgu Jónasdóttur, náttúruvársérfræðing á vakt, sem ræðir við Söru Barsotti, fagstjóra eldfjallavár. (Ljósmynd: Veðurstofa Íslands/Haukur Hauksson)

Vel fylgst með gosinu

Frá því að  eldgosið hófst  hefur verið vel fylgst með gangi mála á svæðinu og hefur síbreytileiki gossins fært vísindamönnum og viðbragðsaðilum krefjandi verkefni. Það má segja að staðsetning eldgossins sé einkar hentug þar sem aðgengi er auðvelt og því nokkuð auðvelt að koma fyrir mælibúnaði til vöktunar. Snemma var myndavélum, gasmælum, hitamælum komið fyrir en einnig búnaði til að safna úrkomu og gjósku til að meta mengun frá gosinu.

Mynd5

 Sérfræðingar Veðurstofunnar þeir Jón Bjarni Friðriksson og Ágúst Þór Gunnlaugsson við uppsetningu á nýrri veðurstöð við eldstöðvarnar 25. mars. (Ljósmynd: Veðurstofa Íslands/ Jón Bjarni Friðriksson)

Skjálftavirknin fór ört minnkandi eftir að kvikan náði upp á yfirborðið, en hegðun eldgossins hefur breyst mikið á þessum sex mánuðum og skiptist í raun í nokkur tímabil. Í fyrstu flæddi kvikan nokkuð stöðugt upp á yfirborðið úr einum megin gíg, en síðan fóru ný gosop að myndast og alls hafa átta gosop opnast. Í dag hafa öll gosopin lokast nema fimmta gosopið sem myndaðist. Því næst tók kvikustrókavirkni við og þar á eftir kviðukennd virkni þar sem hlé kom á gosið í nokkra klukkustundir og jafnvel daga og síðan virknin á ný í nokkra klukkutíma. Í dag er virknin mest innan gígsins en hraunið fer þaðan í pípum í átt að Geldingadölum. Hægt er að sjá hvernig mismunandi tímabil gossins passa vel við óróann á mynd 6.

Mynd6

Mynd 6. A) Sýnir óróann í gosinu frá upphafi (Graf: Stöðin FAF er í eigu Czech Academy of Science (CAS) og Ísor). B) Sýnir dægursveiflur SO2 sem er mælt með DOAS mælitækum. (Graf: Veðurstofa Íslands/Melissa Anne Pfeffer)

Gasmengun er mikil áskorun

Einn af fylgifiskum eldgossins í Fagradalsfjalli er gasmengun. Mikil dægursveifla var á gasi sem kom frá eldgosinu en magn þess sveiflaðist í takti við breytta hegðun gossins. Magn hrauns gerði það einnig með breyttri virkni. Kortlagning hraunsins er dæmi um samstarfsverkefni margra aðila, en Jarðvísindastofnun Háskólans, Náttúrfræðistofnun Íslands og Landmælingar Íslands hafa reglulega útbúið þykktarkort sem myndin hér að neðan er byggð á. Jarðvísindastofnun hefur svo birt reglulega yfirlit sem sýnir m.a. hraunflæði, rúmmál og flatarmál hraunsins.  Flugmælingar sem gerðar voru þann 9. september sýndu að hraunbreiðan var orðin 4,6 km2. en það er aðeins 1/10 af flatarmáli Holuhrauns. Heildarlosun gass við Fagradalsfjall er einnig aðeins 1/10 af því sem að kom úr Holuhrauni en talið er að um 9.6 milljónir tonna af gasi hafi komið upp á yfirborðið í því gosi.

Geldingadalir_lava_thickness_timeseries_with_logo

Mynd 7: Hér er samantekt á þróun á umfangi og þykkt hraunbreiðunnar frá upphafi fram til 9. september. Kortlagning hraunsins er dæmi um samstarfsverkefni margra aðila, en Jarðvísindastofnun Háskólans, Náttúrfræðistofnun Íslands og Landmælingar Íslands hafa reglulega útbúið þykktarkort sem þessi mynd er byggð á.  (Samantekt: Veðurstofa Íslands/Ragnar Heiðar Þrastarson)

Melissa Anne Pfeffer sérfræðingur á sviði ösku- og efnadreifingar segir að í byrjun eldgossins hafi verið mjög auðvelt að mæla efnasamsetningu og hversu mikið gasflæði kom frá eldgosinu. „Þegar leið á gosið og gígurinn fór að hækka og hraunbreiðan tók að stækka þá hefur það verið miklu erfiðara“ segir Melissa. „Teymið okkar hefur stöðugt verið að finna nýjar leiðir og nota nýja tækni til þess að ná að mæla efnasamsetningu og dægursveiflu gass við eldstöðvarnar“, segir Melissa.

Melissa_Gas---Copy

Mynd 8: Ein af þeim hættum sem leynast í kringum gosstöðvar er gasmengun. Sérútbúnir sérfræðingar Veðurstofunnar fara reglulega til að mæla gasstyrk við upptök eldgossins, svo hægt sé að spá fyrir um magn gasmengunar frá eldstöðvunum og eins til að safna gögnum til frekari rannsókna. Hér klæðir Melissa Anne-Pfeffer starfsfélaga sinn í réttan búning. (Ljósmynd: Veðurstofa Íslands/Elísabet Pálmadóttir)

Gas frá eldstöðvunum hefur mælst víða um landið á síðustu 6 mánuði en mest hefur mælst norðvestur af eldgosinu. Nokkrir toppar af SO2 hafa náð yfir 1000 míkrógrömm/m3 í Njarðvík og Vogum sem dæmi, en þetta há gildi eru talin óholl fyrir viðkvæma.  Gosmóða hefur einnig gert vart við sig í sumar, mestmegnis í Reykjavík og á Reykjanesskaga. Gosmóða auðkennist af samhliða aukningu SO2 og fínustu svifryksögnum. Í sumar hefur hefur verið mikið um þoku á vesturhluta Íslands sem hefur haft áhrif á loftgæði og skyggni. Eldgosið hafði einnig áhrif á úrkomu sem kemur fram í sýrstigi vatns sem var safnað í kringum eldgosið. Stöku sinnum féll pH gildið niður fyrir 3 eins og sjá má á mynd 9. Mestu áhrifin urðu frá 15. maí fram í miðjan júní.

Mynd9

Mynd10

Myndir 9 og 10: Sýnir styrk SO2 við jörðina. Mælingar eru gerðar á klukkutíma fresti og sýnir grafið tímabilið frá upphafi goss til dagsins í dag. Appelsínugula línan táknar heilsuverndarmörk manna en það er 350 míkrógrömm/m3. (Gröf: Umhverfisstofnun/Veðurstofa Íslands)

Mynd11

 Mynd 11: Sýnir pH gildi úrkomu í Keflavík frá upphafi eldgoss. Græna línan táknar hreina úrkomu en appelsínugula línan sýnir eðlilegt sýrustig í úrkomu á þessum slóðum en hún er aldrei fyllilega tær. (Graf: Veðurstofa Íslands/Gerður Stefánsdóttir)

Eldgosið stöðugt að breyta um takt

Á þessum sex mánuðum hefur eldgosið verið síbreytilegt. Það hefur fært vísindamönnum einstakt tækifæri til að auka við þekkingu sína en jafnframt gefið almenningi kost á því að komast í tæri við náttúruöflin. Það má kannski segja að eldgos séu jafn heillandi og þau geta verið hættuleg.

Þegar ný gosop tóku að opnast við upphaf gossins, reyndu vísindamenn að rýna í göng til að sjá hvort mögulegt væri að spá fyrir um hvar og hvenær næsta opnun yrði. Fljótlega tókst að greina fyrirboða nýrrar opnunar með því að rýna í óróagröf. Þannig gat sólarhringsvakt Veðurstofunnar sent út viðvörun til viðbragðsaðila á svæðinu sem gátu brugðist við í tíma.

Þetta var ekki síst mikilvægt þar sem að eldgosið hafði mikið aðdráttarafl frá upphafi. Allt að 6000 ferðamenn komu að því fyrstu vikurnar og mikill fjöldi þegar sumarið hófst og útlendingar gátu heimsótt Ísland á ný. „Það hefur verið mikil áskorun að vakta svæðið til að reyna að tryggja öryggi fólks, þar sem eldgosið er stöðugt að breytast og hætturnar samfara því“ segir Sara Barsotti, fagstjóri eldfjallavár á Veðurstofu Íslands.

„Við höfum séð hraunflæði, gasmengun, hraunbombur, gróðurelda og auðvitað erfiðar aðstæður vegna veðurs. Þessi samblanda hefur oft verið krefjandi. En samstarf milli vísindamanna og viðbragðsaðila hefur verið framúrskarandi sem hefur gert okkur kleift að tryggja öryggi fólks “ segir Sara að lokum.

Það verður svo að koma í ljós hversu lengi gosið kemur til með að standa yfir og hver áhrif þess á endanum verða. Það eina sem vitað er með vissu er að náttúran fer sínu fram.

Mynd12Mynd 12: Gosið var kallað „lítið“ gos, en ef við skoðum stærðarhlutföll á myndinni af vefmyndavél RÚV, þá er „lítið“ gos afstætt hugtak. Innan hringsins í horninu niðri vinstra megin má sjá nokkrar manneskjur við hraunjaðarinn og ofar er hringur utan um þyrlu sem sveimar yfir gosstöðvunum. Viðbragðsaðilar áttu fljótlega fullt í fangi með að koma í veg fyrir að fólk setti sig í bráða hættu við gosstöðvarnar. (Ljósmynd: Fengin af vefmyndavél RÚV)






Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica