Leiðindaveður yfir jólahátíðina - hvassviðri og dimm él
Dimm snjóél og víða hvassviðri á landinu, en úrkomulítið á Norðaustur- og Austurlandi
- Hvassviðri eða stormur norðan- og austanlands að kvöldi Þorláksmessu og fram á nótt.
- Leiðindaveður á aðfangadagskvöld og á jóladag.
- Í hvössum vindi og éljum eru akstursskilyrði erfið og færð getur auðveldlega spillst, sér í lagi á tímum þegar snjómokstur er af skornum skammti. Varað er við ferðalögum.
- Gular viðvaranir hafa verið gefnar út, en viðvaranastig gæti hækkað.
- Fólk er beðið um að fylgist vel með veðurspá og færð næstu daga.
Viðvaranir sem hafa verið gefnar út á Þorláksmessu
- Gular viðvaranir vegna suðvestan hvassviðris eða storms taka gildi í kvöld (Þorláksmessu) á Vestfjörðum, Ströndum og Norðurlandi vestra, Norðurlandi eystra og Austurlandi að Glettingi. Vindhviður geta staðbundið farið yfir 35 m/s.
- Gular viðvaranir vegna suðvestan storms og hríðar á kvöldi aðfangadags og á jóladag á vesturhelmingi landsins.

Nánari veðurspá
Þorláksmessukvöld: Hvessir síðdegis, suðvestan 13-23 m/s undir kvöld, hvassast á Norðurlandi og Vestfjörðum þar sem vindhviður geta staðbundið farið yfir 35 m/s. Slydduél eða él á vesturhelmingi landsins og kólnandi veður.
Aðfangadagur: Sunnan 8-15 m/s og él, en þurrt að mestu á norðaustanverðu landinu. Hiti kringum frostmark. Hvessir aftur síðdegis. Suðvestan hríð á vestanverðu landinu um kvöldið (hvassviðri, stormur og jafnvel rok) með dimmum éljum, hvassast í éljahryðjum. Í éljunum má búast við lélegu skyggni og aðstæður til ferðalaga verða erfiðar.
Jóladagur: Suðvestan 15-25 m/s með dimmum éljum, en úrkomulítið á Norðaustur- og Austurlandi. Frost 0 til 6 stig. Hægt skánandi veður að kvöldi jóladags.
Annar í jólum: Suðvestan og sunnan 10-18 m/s og snjókoma eða slydda með köflum, en þurrt að kalla um landið norðaustanvert. Hiti um og undir frostmarki.

Kort sem sýnir vindhraða að morgni jóladags, fjólubláir og beikir litir sýna hvar verður hvassast, en grænir litir það svæði þar sem vindur verður minnstur.