Fréttir
Öskjuvatn í vetrarsól í lok apríl 1999. (Ljósmynd: Veðurstofa Íslands/Oddur Sigurðsson)

Land heldur áfram að rísa við Öskju

Risið er nokkuð stöðugt. Engar vísbendingar eru um að kvika sé að nálgast yfirborð.

16.6.2022

Frá því að landris fór að mælast við Öskju í byrjun ágúst 2021 hefur það haldist nokkuð stöðugt. Miðja þenslunnar er við vesturjaðar Öskjuvatns við Ólafsgíga en nærri rismiðjuni er GPS stöð sem hefur sýnt landris upp á um það bil 2.5 sm á mánuði. Í heildina hefur land risið á þessum stað um 30 sm frá því í byrjun ágúst í fyrra.


Gröfin sýna færslur á GPS stöðinni OLAC í norður, austur og upp fyrir tímabilið 19. júlí, 2021 til 12. júní, 2022. Stöðin, sem er staðsett nærri miðju landrissins (sjá yfirlitskort af stöðvunum neðar í fréttinni) sýnir að um mánaðarmótin júlí-ágúst fór ris að mælast. Vegna óblíðrar veðráttu rofnaði samband við mælistöðvarnar yfir háveturinn.

Snjóalög trufla úrvinnslu gervitunglamynda

Gervitunglamyndir frá því í byrjun september 2021 sýndu vel umfang og miðju landrissins, en ekki er hægt að styðjast við nýjar gervitunglamyndir af svæðinu þar sem snjór kemur í veg fyrir að sjá nothæft merki. Von er á nýjum gervitunglamyndum í lok þessa mánaðar sem gefa skýrari mynd af þróun mála svo lengi sem snjóalög trufli ekki úrvinnslu þeirra.


Mynd sem sýnir nær lóðrétta færslu á tímabilinu 1. ágúst - 20. september, 2021. Myndin er unnin úr gervitunglagögnum úr Sentinel-1 (InSAR). Rauði liturinn sýnir landris og blái sig (sjá kvarða). Miðja þenslunnar og jafnframt þar sem risið mælist mest er við norðvesturhorn Öskjuvatns nærri GPS stöð (svartur þríhyrningur). (Veðurstofa Íslands/Myndvinnsla: Vincent Drouin)

Monitor-map-45x25-cm-GPS-stations-20211014_NEW

Kort sem sýnir staðsetningar á GPS mælum og öðrum búnaði Veðurstofunnar við Öskju. Stöðin OLAC sést við vesturjaðar Öskjuvatns, en gröfin hér að ofan eru frá þeirri stöð. Stöðvunum sem merktar eru JONC, KASC og TANC var bætt við í september 2021 til að efla vöktun eldstöðvarinnar í kjölfar þess að landris fór að mælast. (Veðurstofa Íslands)

Engar vísbendingar um að kvika nálgist yfirborð

Líklegast er að um innflæði kviku sé að ræða. Módelreikningar benda til að merkið eigi sér uppruna á um 2 km dýpi í jarðskorpunni.

“Eldfjöll sýna oft lotubundna virkni þar sem þau liggja svo að segja í dvala með lítilli mælanlegri virkni árum og áratugum saman en inn á milli koma virknitímabil með þennslu, jarðskjálftum og jarðhita”, segir Benedikt G. Ófeigsson, sérfræðingur á sviði jarðskorpuhreyfinga á Veðurstofu Íslands. Askja er virk eldstöð og þar mælast reglulega skjálftar, en síðast gaus í Öskju árið 1961. Reglulegar mælingar sýndu einnig landris á árunum 1970-1972 en hlé varð á þeim mælingum og þegar reglulegar mælingar hófust að nýju árið 1983 hafði land sigið. Síðan þá hafði mælst stöðugt landsig um 1 sm á ári þar til nú.

“Þegar kemur að Öskju er engin leið að segja til um það fyrirfram hvernig slík virknitímabil þróast, en algengast er að slíkum tímabilum ljúki án þess að til eldgoss komi. Það er ekki langt síðan það gaus þarna, ekki nema 60 ár og ef við rýnum í tölfræðina yfir þekkt gos í Öskju hefur gosið þar að meðaltali tvisvar á hverju eitthundrað ára tímabili. Það má alveg gera ráð fyrir því að þessi atburðarrás endi með eldgosi, en það er engin leið að vita með vissu. Þegar gaus þarna síðast 1961 þá var það meðalstórt hraungos sem ekki fylgdi mikil gjóska og með núverandi vöktun ættum við að geta brugðist við í tíma ef til eldgoss kemur”, segir Benedikt.

Ríkislögreglustjóri, í samráði við Lögreglustjórann á Norðurlandi eystra, lýsti yfir óvissustigi Almannavarna vegna landrissins í september í fyrra. Veðurstofan fylgist vel með þróun mála og mun veita upplýsingar um allar breytingar sem verða á virkninni.

Nánari upplýsingar um eldstöðina Öskju má lesa á islenskeldfjoll.is


Rekstur og viðhald á tækjum í Öskju er gríðarlega krefjandi, enda er Askja nánast á miðju hálendi Íslands og ekkert GSM samband inni í öskjunni. Samhliða rekstri GPS stöðva við Öskju eru reknir endurvarpar á norðanverðum öskjurimanum sem tengir GPS stöðvar með radíólink við umheiminn sem oft eru viðkvæmir fyrir óveðri. Á myndinni má sjá endurvarpinn á norðanverðum öskjurimanum og GPS stöðin TANC, Öskjuvatn í baksýn. (Ljósmynd: Veðurstofa Íslands/Benedikt Gunnar Ófeigsson)





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica