Fréttir
Gular og appelsínugular viðvaranir um landið

Jólaveðrið: Hvassviðri og rigning með gulum og appelsínugulum viðvörunum

22.12.2025

Í dag hefur verið suðaustan strekkingur með nokkuð efnismiklum skúrum á sunnanverðu landinu. Nú um kvöldmatarleytið má gera ráð fyrir að stærri úrkomubakki komi inn á Suður- og Vesturland og færist norðaustur yfir landið í kvöld og nótt. Búast má við rigningu í bakkanum en kólnar heldur og aftast í honum gæti úrkoman orðið slyddukennd og jafnvel snjókoma á heiðum.

Í fyrramálið er útlit fyrir tiltölulega hægan vind víða um land og lítils háttar úrkomu. Síðdegis á Þorláksmessu breytist veðrið hins vegar, þegar gengur í mikið og langvinnt sunnanhvassviðri. Veðrið stendur áfram yfir aðfangadag og verður enn nokkuð hvasst á jóladag.

Hvassasti kaflinn á aðfangadag

Hvassasti kaflinn í þessu veðri verður væntanlega fyrripartinn á aðfangadag á Vestfjörðum, Norðurlandi-Vestra og Norðurlandi-Eystra þá má búast við stormi eða roki á þessum slóðum og hviðurnar geta farið yfir 40 m/s. Því hefur þessi kafli á þessum svæðum verið rammaður inn með appelsínugulri viðvörun. Við slíkan vindstyrk er ekki aðeins hætta á að lausir munir fjúki heldur geta einnig orðið skemmdir á mannvirkjum, til dæmis að þakplötur losni.

Gular og appelsínugular viðvaranir

Þessu sunnanveðri fylgir talsverð eða mikil rigning á sunnan- og vestanverðu landinu frá síðdegi á Þorláksmessu og allan aðfangadag. Gular viðvaranir vegna rigningar hafa því verið gefnar út. Á jóladag er útlit fyrir minni úrkomu, en einhver væta þó.

Kæmi ekki á óvart ef hitamet yrði slegið

Sunnanáttin færir jafnframt mjög hlýjan og rakan loftmassa yfir landið, ættaðan langt sunnan úr höfum. Hiti getur þá náð sér vel á strik í hnjúkaþey á Norður- og Austurlandi.

Það kæmi ekki á óvart að sjá 17-18 stig á einhverri mælistöð í þessum landshlutum áður en veðrinu lýkur, til dæmis á aðfangadagskvöld eða að morgni jóladags.


Þess má geta að hæsti hiti sem mælst hefur í desember á Íslandi er 19,7 stig, mældur á Kvískerjum 2. desember 2019. Þá var sunnanátt á landinu, ekki ósvipuð þeirri sem nú er í kortunum. Því er ekki hægt að útiloka þann möguleika að desemberhitametið falli nú um jólin, því hnjúkaþeyrinn getur verið brellinn og brögðóttur.

Nánar er hægt að fylgjast með viðvörunum Veðurstofu Íslands hér







Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica