Jöklarannsóknafélag Íslands 70 ára
Veðurstofan hefur notið góðs af samstarfi við félagið frá upphafi
Það eru fleiri en Veðurstofan sem fagnar stórafmæli í ár. Jöklarannsóknafélag Íslands fagnar 70 ára afmæli en félagið var stofnað í nóvember 1950. Sú einstaka samvinna vísindamanna og sjálfboðaliða sem er grundvöllur félagsins hefur skilað miklum árangri og eflt jöklarannsóknir hér á landi. Jón Eyþórsson, sem oft er nefndur fyrsti íslenski veðurfræðingurinn, stofnaði Jöklarannsóknafélagið ásamt nokkrum samstarfsmönnum sínum við jöklarannsóknir þegar hann var deildarstjóri á Veðurstofunni og var hann „lífið og sálin í félaginu til dauðadags“ eins og skrifað var í minningagrein um Jón.
Jón Eyþórsson skoðar klakahöll í Esjufjöllum í Breiðamerkurjökli um páskana 1951. (Ljósmynd: Veðurstofan/Sigurjón Rist)
Margir starfsmenn Veðurstofunnar hafa verið virkir þátttakendur í starfi félagsins, setið í stjórn og nefndum og hefur gagnasafn um sporðamælingar félagsins verið í umsjón starfsmanna Veðurstofunnar og áður á Vatnamælingum. Mörg rannsóknaverkefni sem ekki snúa beint að jöklarannsóknum á Vatnajökli hafi notið góðs af samstarfi félagsins, Veðurstofunnar og Jarðvísindastofnunar, s.s. uppsetning og rekstur jarðskjálftamæla, GPS-mæla, o.fl..
Búnaður "félagsmanna" hefur mikið breyst á 70 árum. Hér er mynd tekin við jaðar Tungnáarjökls innan við Jökulheima líklega á seinni hluta 6. áratugarins. Lengst til vinstri er Bolli Thoroddsen, við hlið hans er Steingrímur Pálsson og hægra megin við hann Sigmundur Freysteinsson (með rauðan hálsklút). Lengst til hægri er Hörður Hafliðason, þá Gunnar Guðmundsson. Mennirnir standa við snjóbílinn Kraka sem Gunnar Guðmundsson átti. Hinn bíllinn var í eigu Vatnamælinga og var kallaður Guli bíllinn og var með númerið R-8904. Hann var af gerðinni Chevrolet. (Ljósmynd: Veðurstofan/Eberg Elefsen)
Magnús Tumi Guðmundsson, formaður JÖRFÍ, birti stutta afmælisgrein á vef félagsins á dögunum þar sem hann sagði meðal annar að „það er margs að minnast og margt að gleðjast yfir þegar horft er yfir 70 ára sögu. Félagið sinnir sporðamælingum, stendur fyrir vorferðum og mælingum á afkomu á Mýrdalsjökli. Það á skála á sex stöðum á og við Vatnajökul og einn á Langjökli. Jökull hefur komið út jafnlengi og félagið hefur starfað. Ekkert af þessu gerðist af sjálfu sér. Fólkið í félaginu hefur unnið þessi störf og notar til þess frístundir sínar. Þetta öfluga starf og stór þáttur áhugafólks vekur athygli út fyrir landsteinana“
Við á Veðurstofunni óskum okkar góðu félögum í JÖRFÍ til hamingju með árin 70 og þökkum árangurssríkt samstarf í gegnum tíðina.