Fréttir
Erindi og málstofur varðandi jökla og ís voru því áberandi á Hringborði Norðurslóða (Arctic Circle) þetta árið þar sem fulltrúar Veðurstofunnar fluttu erindi, stýrðu málstofum og tóku þátt í pallborðs
Erindi og málstofur varðandi jökla og ís voru því áberandi á Hringborði Norðurslóða (Arctic Circle) þetta árið þar sem fulltrúar Veðurstofunnar fluttu erindi, stýrðu málstofum og tóku þátt í pallborðsumræðum

Jöklar fengu mikla athygli á Arctic Circle

Vinnustofa um ný landlíkön sem marka tímamót við rannsóknir á áhrifum loftslagsbreytinga

15.10.2019

Breytingar á útbreiðslu jökla og íss eru ein sýnilegasta birtingarmynd hlýnandi loftslags í heiminum. Erindi og málstofur um jökla og ís voru því áberandi á Hringborði Norðurslóða (Arctic Circle) þetta árið þar sem fulltrúar Veðurstofunnar fluttu erindi, stýrðu málstofum og tóku þátt í pallborðsumræðum. Samhliða Arctic Circle stýrði Veðurstofan vinnufundi sérfræðinga um samstarfsverkefnið dArcticDEM sem íslenska ríkisstjórnin hefur ákveðið að leggja áherslu á meðan Ísland fer með formennsku í Norðurskautsráðinu 2019–2021.

Jöklar á Norðurslóðum rýrna hratt

Mörg helstu jöklasvæði jarðarinnar eru á Norðurslóðum og má þar til nefna Alaska, kanadísku og rússnesku íshafseyjarnar, Svalbarða og Ísland, að ógleymdum Grænlandsjökli, sem er langstærsta jökulbreiða Jarðar utan Suðurskautslandsins. Nýjustu niðurstöður um breytingar jökla á Norðurslóðum voru kynntar á sérstakri málstofu sem Veðurstofan stóð fyrir á Arctic Circle í samvinnu við Norðurslóðanet Íslands. Þar kom m.a. fram að nær allir jöklar á þessum svæðum rýrna nú ört og frá aldamótum má rekja meira en helming sjávarborðshækkunar á jörðinni af völdum jökla til þeirrar rýrnunar.

Þorsteinn Þorsteinsson, sérfræðingur í jöklarannsóknum á Veðurstofu Íslands stýrði málstofunni um breytingar á jöklum á Norðurslóðum. Veðurstofan stóð fyrir málstofunni í samvinnu við Norðurslóðanet Íslands. (Ljósmynd: Veðurstofa Íslands)

Martin Sharp frá háskólanum í Alberta í Kanada greindi frá jöklarýrnun á íshafseyjum Kanada, þar sem jöklar ná samtals yfir um 146 þúsund ferkílómetra. Rúmmál þeirra er samtals um tífalt rúmmál jökla á Íslandi og massatap þeirra á árunum 2006–2015 er metið um 70 gígatonn á ári. Barbara Barzycka frá háskólanum í Katowice í Póllandi fjallaði um rýrnun jökla á Svalbarða. Þar hefur hlýnun undanfarna áratugi verið meiri en víðast hvar annars staðar á jörðinni og nemur hækkun ársmeðalhita á bilinu 3–5°C árin 1971-2018. Jöklar liggja þar víða í sjó fram og massatap þeirra 2006–2015 hefur verið áætlað um 9 gígatonn á ári. Það er nokkru meira en árleg rýrnun jökla á Íslandi, sem Guðfinna Aðalgeirsdóttir við Háskóla Íslands fjallaði um í erindi sínu. Guðfinna greindi frá afkomumælingum á vegum Háskólans og Veðurstofunnar, fjallaði um sporðamælingar Jöklarannsóknafélagsins og sagði frá nýjustu líkanreikningum á rýrnun jökla hérlendis í hlýnandi loftslagi. René Forsberg frá Tækniháskóla Danmerkur (DTU-Space) talaði um aðferðir, sem notaðar eru til að áætla massabreytingar Grænlandsjökuls. Er þar mest horft til gervitunglamælinga á þyngdarsviðinu yfir jöklinum. Nokkrir rannsóknahópar vinna úr þeim gögnum og benda niðurstöður til að Grænlandsjökull hafi lagt til stærsta einstaka framlag jökla til hækkunar heimshafanna árin 2006–2015, um 0.8 mm/ári. Paul Morin frá Minnesotaháskóla kynnti nýtt hæðarlíkan af öllu Norðurskautssvæðinu (ArcticDEM) sem Bandaríkin hafa látið gera og vinna hófst við meðan þau fóru með formennsku í Norðurskautsráðinu 2015–2017. Líkanið hefur nú þegar verið nýtt til rannsókna á jöklabreytingum á Íslandi.

Svalbardamynd

Myndin sýnir mót tveggja jökla á Svalbarða. Báðir ganga þeir í sjó fram og mynda ísbrú yfir sund á milli tveggja eyja á sunnanverðum eyjaklasanum. Áætlað hefur verið að ísbrúin rofni vegna hörfunar jöklanna á árabilinu 2055-2065. (Ljósmynd: Sr. Marek Michalski)

Mjög nákvæmt landlíkan af Íslandi í vinnslu

Í tengslum við málstofuna um breytingar jökla á Norðurslóðum var haldinn vinnufundur sérfræðinga um samstarfsverkefnið dArcticDEM sem íslenska ríkisstjórnin hefur ákveðið að leggja áherslu á meðan Ísland fer með formennsku í Norðurskautsráðinu 2019–2021. Tómas Jóhannesson, fagstjóri á sviði jöklarannsókna á Veðurstofunni stýrði vinnufundinum. Verkefnið byggir á áðurnefndu ArcticDEM landlíkani, sem býður upp á einstaka möguleika til margs konar rannsókna og hagnýtingar. Landmælingar Íslands (LMÍ) og Veðurstofa Íslands (VÍ) vinna nú að ýmsum endurbótum á líkaninu til að nýta möguleika þess til fulls, í samvinnu við bandarísku vísindastofnunina Polar Geospatial Center í Minnesota (PGC).

Landlikan_Island

Endurbætta líkanið af Íslandi verður með 2x2 m upplausn í láréttu plani og vonast er til þess að lóðrétt nákvæmni verði betri en 0,5–1 m. Hér er skygging af bráðabirgðaútgáfu ArcticDEM líkansins af Íslandi (LMÍ, VÍ og PGC, 2019).

Ný landlíkön marka tímamót við rannsóknir á áhrifum loftslagsbreytinga á norðurslóðum

Jöklafræðingar og kortagerðarmenn frá aðildarlöndum Norðurskautsráðsins munu í þessu verkefni hagnýta landlíkön frá mismunandi tímum til þess að leggja mat á breytingar á yfirborðshæð jökla frá um 2010 og meta þannig rýrnun þeirra. Veðurstofa Íslands og Landmælingar Íslands standa að þessu verkefni fyrir Íslands hönd í samvinnu við Jarðvísindastofnun Háskólans, Landsvirkjun og fleiri hérlendar stofnanir og fyrirtæki. Í verkefninu verða unnin nákvæm landlíkön af jöklum landsins á mismunandi tímum sem verða aðgengileg vísindamönnum, kortagerðarmönnum og öðrum sem þurfa á slíkum gögnum að halda að verkefninu loknu.

Halldór Björnsson, hópstjóri loftslags á Veðurstofu ÍslandsBreytingar á norðurslóðum hafa áhrif langt suður á bóginn

Halldór Björnsson, hópstjóri loftslags á Veðurstofu Íslands, hélt erindi og tók þátt í pallborðsumræðum undir yfirskriftinni „Arctic Tipping Points“. Halldór sagði frá því hvernig hlýnun á norðurslóðum, sem er núna tvöföld á við meðalhlýnun á jörðinni, hefur áhrif á veðurfar langt út fyrir það svæði. Hlýnun á norðurslóðum getur t.d. valdið óvenjulegum kuldaköstum sem ná alla leið suður til Texas. „Það felst ákveðin óvissa í því að rekja einstakar breytingar til athafna manna. Það er þó ekki aðalatriðið heldur mögulegar afleiðingar þess að líta framhjá niðurstöðum -  þó þær kunni enn að vera óvissar“ sagði Halldór meðal annars í erindi sínu.

Árni Snorrason, forstjóri Veðurstofunnar, var einnig með erindi í málstofu á vegum SAON (Sustaining Arctic Observing Networks) sem er net stofnana sem stunda rannsóknir og mælingar á norðurslóðum. Þar talaði Árni sem formaður GCW (Global Cryosphere Watch) sem er umfangsmikið verkefni innan Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar, WMO. Markmið verkefnisins er m.a. að samhæfa gagnaöflun og rannsóknir á snjó og ís á norðurslóðum og miðla þeim upplýsingum áfram til þess að auka getu samfélaga heimsins til að takast á við óhjákvæmileg áhrif loftslagsbreytinga.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica