Fréttir
Kortið sýnir jarðskjálfta yfir 1,0 að stærð í Öskju frá janúar 2021. Þar sést þyrping jarðskjálfta við austurströnd Öskjuvatns sem er þekkt jarðskjálftasvæði.

Jarðskjáltavirkni í Öskju nokkuð jöfn frá áramótum

Jarðvísindamenn Veðurstofunnar rýndu í virkni eldstöðva landsins á reglulegum yfirlitsfundi

17.3.2023

Mánaðarlegur langtímaeftirlitsfundur vegna jarðvár var haldinn í vikunni. Fundinn sitja jarðvísindamenn Veðurstofu Íslands og rýna gögn síðasta mánaðar til að meta þróun í virkni eldstöðva, ásamt því að yfirfara vöktunarstig Veðurstofunnar fyrir eldfjöll. Á fundinum var athyglinni sérstaklega beint að Öskju og Kötlu.

Virkni í Öskju nokkuð jöfn frá áramótum

Jarðskjálftavirkni við Öskju jókst greinilega við upphaf landriss í ágúst 2021. Í desember dró aftur aðeins úr virkninni og hefur hún haldist jöfn síðan þá. Þó má sjá að virknin hefur verið umfram bakgrunnsvirkni sem mældist áður en landris hófst . Engin skýr merki eru um mikla breytingu á landrisi.  Öskjuvatn hefur lagt aftur eftir kuldatíð síðustu vikna sem sýnir hversu síbreytilegt umhverfið við Öskju er. Áfram er fylgst náið með eldstöðinni.

Askja_skjalftarit_2023

Línuritið sýnir uppsafnaðan fjölda jarðskjálfta yfir 1,0 að stærð í Öskju frá janúar 2021. Greinileg aukning sést í ágúst og september 2021 þegar landris hófst á svæðinu. (Línurit úr skjálftavefsjá Veðurstofunnar ). Smelltu á myndina til að sjá hana stærri.

Monitor_map_30x30cm_20230307_fc_nir_S2_12mar

Gervihnattamynd tekin 12. mars sem sýnir ísilagt Öskjuvatn eftir kuldatíð síðustu vikna. Vatnyfirborð í Víti er þó áfram íslaust. (Mynd: Copernicus (Sentinel-2)

Aukin jarðskjálftavirkni í Kötlu, en vöktunarstig óbreytt.

Jarðskjálftavirkni í Kötlu hefur aukist síðustu mánuði og frá síðastliðnu hausti hafa ríflega 20 skjálftar yfir þremur að stærð mælst í eldstöðinni. Stærsti skjálftinn var í nóvember 2022 og var 3,9 að stærð. 

Dæmi eru um að jarðskjálftavirkni hafi aukist tímabundið. Síðast gerðist það á tímabilinu frá júlí 2016 fram til ágúst 2017. Á því tímabili mældust hátt í 60 jarðskjálftar yfir þremur að stærð og fjórir þeirra voru yfir fjórum að stærð. Stærsti skjálftinn mældist í ágúst 2016 og var 4,7 að stærð.

Gögn benda til þess að jarðhitavatn hafi lekið í Múlakvísl um mánaðarmótin febrúar – mars. Þá mældist há rafleiðni í ánni og jarðhitagas mældist við Láguhvola sem er nærri Kötlujökli þar sem Múlakvísl á upptök sín. Jarðhitavatnsleki eins og sá sem mældist um mánaðarmótin er reglulegur atburður í Múlakvísl og er hluti af hefðbundinni virkni í Kötlu. Engar mælanlegar breytingar eru á jarðskorpuhreyfingum.

Út frá þeim gögnum sem farið var yfir á fundinum er ekki talin ástæða til að breyta vöktunarstigi fyrir Kötlu, en náttúruvárvakt Veðurstofunnar fylgist grannt með eldstöðinni sem og öðrum eldstöðvum landsins allan sólahringinn alla daga ársins.

Katla_jardskjalftar_kort_mars2023

Skjálftar yfir 3,0 að stærð í Kötlu síðan janúar 2022. (Kort úr skjálftavefsjá Veðurstofunnar ). Smelltu á myndina til að sjá hana stærri.

Katla_graf_mars2023

Grafið sýnir skjálfta yfir 3,0 að stærð í Kötlu síðan janúar 2022. Þarna sést að virkni hefur aukist síðan haust 2022. (Grafið er úr skjálftavefsjá Veðurstofunnar ). Smelltu á myndina til að sjá hana stærri.






Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica