Fréttir
Gervihnattagögn frá 18. til 20. júlí. Skýr merki eru um yfirborðsbreytingar sem samsvara hér um bil 3 cm færslu um sprungu sem liggur í NA-SV rétt við Fagradalsfjall (svæðið innan svarta kassans).

Jarðskjálftavirknin við Fagradalsfjall fer dvínandi

Hrinan túlkuð sem hluti af lengri atburðarás á Reykjanesskaganum

23.7.2020

Jarðskjálftavirknin við Fagradalsfjall hefur farið dvínandi frá því að kröftug hrina hófst þar þann 18. júlí. Úrvinnsla gervihnattagagna frá 18. til 20. júlí hefur leitt í ljós skýr merki um yfirborðsbreytingar sem samsvarar hér um bil 3 cm færslu um sprungu sem liggur í NA-SV rétt við Fagradalsfjall (Sjá svæði innan svarta kassans í myndinni hér að ofan. Smelltu hér til að sjá stærri útgáfu af kortinu .) Þessi sprunga kom í ljós í skjálftahrinu árið 2017 sem átti sér stað á sama svæði. Hrinan, sem nú er í gangi, er túlkuð sem hluti af lengri atburðarrás sem hófst á Reykjanesskaganum í enda árs 2019 og hefur náð allt frá Eldey fyrir vestan, og að Krýsuvík fyrir austan. Þessi virkni, sem samanstendur af bæði jarðskjálfavirkni og mögulegum kvikuinnskotum, getur verið löng og kaflaskipt. Miðpunktur virkninnar getur færst á milli svæða á skaganum, en eftir Reykjanesskaganum og Reykjaneshrygg liggja flekaskil og ganga eldstöðvakerfin, Eldey, Reykjanes, Svartsengi og Krýsuvík þvert á þessi skil.

Mikilvægt er að gera sér grein fyrir hættum sem stafa af hrinum sem þessum:

  • Skriður og grjóthrun geta átt sér stað eftir stóra jarðskjálfta, líklegast á svæðum með óstöðugar hlíðar, bratta klettarveggi og laust efni, t.d. í nágrenni Kleifarvatns.
  • Skjálftar af stærð M5,5-6 geta átt sér stað á Reykjanesskaganum. Slíkir skjálftar geta valdið tjóni víða m.a. á höfuðborgarsvæðinu.
  • Gas getur safnast fyrir í lægðum þegar það er logn eða rólegur vindur.


Myndin sýnir skjálftavirkni á Reykjanesskaganum frá 18. júlí til dagsins í dag.

Vísbendingar um lítilsháttar jarðsig við Svartsengi

Á gervihnattamyndum af svæðinu við Fagradalsfjall má einnig greina lítilsháttar jarðsig við Svartsengi (Sjá svæði innan rauða kassans í myndinni hér að ofan). Talið er að sigið hafi byrjað áður en stóru jarðskjálftarnir urðu á svæðinu við Fagradalsfjall. Reglulegar mælingar orkuversins í Svartsengi gefa ekki til kynna neinar breytingar á jarðhitavirkni svæðisins og engar marktækar breytingar hafa orðið við jarðefnamælingar sem gerðar voru í þessari viku á Reykjanesskaganum. Beðið er frekari gagna sem varpað geta ljósi á ástæður jarðsigsins og hvernig það fellur inn í atburðarásina á Reykjanesskaganum.

Mikil skjálftavirkni ein af sviðsmyndum Vísindaráðs

Eins og áður hefur komið fram á fundum Vísindaráðs Almannavarna vegna atburðanna á Reykjanesskaganum, þá er jarðskjálftavirknin frá áramótum sú mesta sem mælst hefur á skaganum frá upphafi stafrænna mælinga árið 1991. Líklegast er um að ræða langa og kaflaskipta atburðarrás og vinnur Vísindaráð ennþá út frá þeim sviðsmyndum sem nefndar voru í upphafi árs. Óvissustig vegna jarðhræringa á Reykjanesskaga er enn í gildi hjá Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica