Fréttir
Dregið hefur úr virkni hrinunnar við Kópasker síðasta sólarhringinn
Dregið hefur úr virkni hrinunnar við Kópasker síðasta sólarhringinn

Jarðskjálftahrinan við Kópasker ein sú öflugasta í 28 ár

Dregið hefur úr virkni síðasta sólarhringinn

5.4.2019

Jarðskjálftahrinan sem nú er í gangi um 6 km suðvestur af Kópaskeri, er sú öflugasta á þessari sprungu séu skoðuð gögn aftur til 1991. Frá því að hrinan hófst þann 23. mars hefur sjálfvirka mælakerfi Veðurstofunnar mælt tæplega 3000 skjálfta. Stærsti skjálfti hrinunar mældist í 27. mars, af stærð 4,2 kl. 20:29, en í allri hrinunni hafa mælst 8 skjálftar af stærð 3 og yfir.

Kópaskersskjálftinn 13. janúar 1976 hrökk á svipuðum slóðum, en þekkt er að jarðskjálftahrinum geti fylgt stærri jarðskjálftar. Jarðskjálftahrinum lýkur þó í flestum tilfellum án stærri atburða og nú virðist vera að draga úr virkni þessarar hrinu.


Afstæðar staðsettningar (rauðir punktar) sína að skjálftadreifingin liggur á sprungu með strik um 15 gráður austan við norður. Virknin á þessum slóðum tengist ekki kviku heldur er vegna flekahreyfinga.


Myndin sýnir jarðskjálftastaðsetningar á korti. Með háupplausnastaðsetningaaðferðum (afstæðum staðsetningum) sést hvernig jarðskjálftarnir verða á ákveðnum brotflötum. Aðferðin sýnir vel ákvarðaða sprungufleti með því að meta innbyrðis staðsetningu skjálftanna, en nákvæm staðsetning hrinunnar er ekki eins góð. Þrír brotfletir eru greinilegir, þar af einn aðal brotflötur sem er um 5 km langur. Til hægri sést dýptarsnið þar sem horft er eftir aðal brotfletinum frá norðaustri. Á því sniði sést að skjálftarnir eru helst á 2-5 km dýpi.

1300 skjálftar "pikkaðir" í hrinunni

Af þeim tæplega 3000 skjálftum sem mælst hafa með sjálfvirka mælakerfi Veðurstofunnar hafa um 1300 þeirra verið yfirfarnir handvirkt. Það þarf að gera til að tryggja áreiðanleika mælinganna. Að öllu jöfnu þarf að yfirfara um 70 skjálfta á dag, en þann tíma sem hrinan við Kópasker hefur verið í gangi hefur sá fjöldi farið upp í 150. Það eru náttúruvársérfræðingar Veðurstofunnar sem yfirfara skjálftana og tala um að "pikka" skjálfta.


Einar Bessi Gestsson, náttúruvársérfræðingur "pikkar" skjálfta úr hrinunni við Kópasker í dag.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica