Jarðskjálftahrina í Borgarfirði
Er af völdum tognunar í jarðskorpunni. Staðsett á lághitasvæði og engar vísbendingar um kvikusöfnun
Jarðskjálftahrina sem hófst seinnipart desember 2021 vestan við Ok í Borgarfirði stendur enn og hafa um 550 jarðskjálftar mælst á svæðinu frá því að hrinan hófst. Skömmu eftir miðnætti síðustu nótt varð skjálfti af stærð 3,7 á svæðinu sem er stærsti skjálftinn hingað til í þessari hrinu og jafnframt sá fimmti yfir þremur að stærð. Veðurstofunni bárust tilkynningar um að fólk hefði fundið fyrir skjálftanum víðsvegar á Vesturlandi og Höfuðborgarsvæðinu. Upptök skjálftanna í hrinunni eru á lághitasvæði og eru engar vísbendingar um kvikusöfnun.
Skjálftarnir í þessari hrinu eru innflekaskjálftar þar sem staðsetning þeirra er utan flekaskila og eldvirkra svæða. Innflekaskjálftar geta orðið vegna láréttrar tognunar í jarðskorpunni, svokallaðra siggengishreyfinga.
Innflekaskjálftar eru ekki algengir á Íslandi en þó eru
þeir þekktir. Nokkrar hrinur af innflekaskjálftum urðu í Borgarfirði á síðustu
öld og varð sú öflugasta árið 1974. Sú hrina stóð yfir í meira en tvo mánuði og
var meginvirknin staðsett við Þverárhlíð sem er norðan við það svæði þar sem nú
mælist skjálftavirkni. Stærsti skjálftinn í hrinunni í júní 1974 var metinn 5,5
að stærð og olli m.a. skriðuföllum og grjóthruni en litlum skemmdum á húsum.