Hvers vegna COP27?
Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna stendur yfir í Egyptalandi. Veðurstofa Íslands heldur málstofu á ráðstefnunni.
Nú stendur yfir 27. aðildarríkjafundur Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna, COP27, í Sharm El-Sheikh í Egyptalandi. COP stendur fyrir Conference Of the Parties og á fundinum mætast þjóðarleiðtogar þeirra 198 þjóða sem skrifað hafa undir samninginn og setja sér markmið um hvernig standa skal vörð um framtíð jarðarinnar. Auk þeirra taka þátt í samtalinu embættismenn, sérfræðingar, loftslagshópar og aðgerðasinnar á sviði loftslagsmála.
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra ávarpaði viðburðinn í gegnum streymi en Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra, sækir fundinn í Egyptalandi fyrir hönd íslenskra stjórnvalda. Fyrir Íslands hönd sitja auk þeirra fundinn fulltrúar Alþingis, ráðuneyta og stofnana.
Anna Hulda Ólafsdóttir, skrifstofustjóri Skrifstofu loftslagsþjónustu og aðlögunar hjá Veðurstofu Íslands, er viðstödd seinni viku fundarins. Hlutverk Önnu Huldu er meðal annars að fylgjast með umræðum er tengjast loftslagsbreytingum og aðlögun þjóða. Auk þess tekur hún þátt í pallborðsumræðum á viðburði á vegum Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar (WMO). Viðburðinn ber heitið The loss of Antarctica and Greenland Ice sheets in a warning climate – bridging between science and action og ræðir Anna Hulda sér í lagi áhrif bráðnunar freðhvolfisins á sjávarstöðubreytingar.
Veðurstofa Íslands og Alþjóðaveðurmálastofnunin standa fyrir málstofu á COP27 um afdrif íss og snævar í hlýnandi loftslagi jarðar og þær áskoranir sem þeim fylgja. Viðburðurinn ber nafnið A Message on the Cryosphere og er eins konar samantekt á lykilniðurstöðum alþjóðlegrar ráðstefnu, Cryosphere 2022, sem haldin var um freðhvolfið í Reykjavík fyrr á þessu ári.
Tilurð COP
Loftslagssamningur Sameinuðu þjóðanna var undirritaður árið 1992 þar sem aðildarríki staðfestu viðleitni sína við að sporna gegn alvarlegum loftslagsbreytingum og finna leiðir til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu.
Með Parísarsamningnum árið 2015 voru skýrari viðmið sett og flest ríki heims skuldbundu sig til þess að leggja sitt af mörkum við að halda hlýnun jarðar innan við 2°C miðað við upphaf iðnvæðingar, en leitast jafnframt við að halda hækkuninni undir 1,5°C. Til þess að mæta þessum markmiðum hafa þjóðir heimsins komið sér saman um að hvert og eitt ríki leggi fram nokkurs konar loforðalista, eða það sem er oft kallað landsframlag (NDC). Það felur í sér hvert framlag viðkomandi ríkis verði til heildarmarkmiða samningsins.
Þjóðarleiðtogar aðildarríkja hafa haldið reglubundna fundi, COP, til þess að tryggja endurnýjun þessara skuldbindinga. Á 26. aðildarríkjafundi Loftslagssamningsins, COP26, sem haldinn var í Glasgow árið 2021 sammæltust ríki um að setja sér ný markmið í loftslagsmálum. Markmið Parísarsamningsins, um að leita allra leiða til þess að takmarka hlýnun við 1,5°C, voru staðfest. Skuldbindingar um að draga úr notkun kola sem orkugjafa voru undirritaðar, en það er í fyrsta sinn sem slíkt hefur verið tekið sérstaklega fram í samningarviðræðum á þessum fundum. Auk þess voru gerðir samningar um að draga úr útblæstri metans, endurheimta gróðurlendi og leggja til fjármagn til aðstoðar þróunarríkjum við að takast á við loftslagsbreytingar.
Hver er staðan núna?
Milliríkjanefnd um loftslagsbreytingar ( IPCC ) er leiðandi afl í loftslagsrannsóknum. Nefndin hefur greint hvaða áhrif hlýnun um 1,5°C gæti haft á jörðina. Niðurstöður benda til þess að gríðarlegur munur sé á áhrifum loftslagsbreytinga sem fylgja 1,5°C hlýnun og 2°C hlýnun. Hækkun um 1,5°C getur falið í sér hækkandi sjávarstöðu, tíðari hitabylgjur, þurrka, flóð, sterkari storma og annars konar veðuröfgar en þær öfgar væru þó af mun vægara tagi en þær sem fylgt geta hlýnun um 2°C.
Snýst COP27 bara um að draga úr losun?
Loftslagsfundir Sameinuðu þjóðanna hefjast á því að þjóðarleiðtogar hittast fyrir luktum dyrum og setja sér sameiginleg markmið. Að því loknu yfirgefa þeir svæðið en fulltrúar þeirra sitja áfram og sjá um áframhaldandi samningaviðræður.
„Meginumræðuefni samningaviðræðanna á fyrri fundum hefur verið landsframlag aðildarríkjanna og hvernig draga skuli úr losun gróðurhúsalofttegunda. Á COP27 hefur aftur á móti verið lögð höfuðáhersla á fjármál í tengslum við loftslagsbreytingar, aðlögun, tap og tjón og önnur atriði sem skipta þróunarríkin höfuðmáli. Þá er sérstaklega lögð áhersla á aðstoð við að undirbúa þjóðir undir afleiðingar loftslagsbreytinga og að tryggja tæknilega aðstoð og fjármagn fyrir þróunarríki til þess að undirbúa sig undir komandi tíma og aðlagast því sem þegar er að gerast,” segir Anna Hulda.
Hugtökin tap og tjón eru í fyrsta skipti liður á formlegri dagskrá COP. Um er að ræða öfgafyllstu afleiðingar loftslagsbreytinga sem aðlögunaraðgerðir geta tæplega búið ríki undir, svo sem fellibylir, hamfaraflóð og langvarandi þurrkar. Uppbygging eftir slíkt tjón getur staðið yfir um árabil ef hún næst yfirhöfuð. Á COP27 hefur verið stofnaður sérstakur sjóður til þess að bæta það tjón sem afleiðingar loftslagsbreytingar valda og hafa nokkur ríki þegar lýst sig reiðubúin til þess að leggja til fjármagn í sjóðinn.
Anna Hulda segir að þátttakendur tali almennt um COP27 sem fund þar sem áhersla er lögð á innleiðingu fremur en loforð.
Freðhvolfið og „þriðji póllinn“
Guðlaugur Þór Þórðarson ávarpaði viðburð um málefni „þriðja pólsins“ í tengslum við COP27, en það hugtak er oft notað yfir háfjallasvæði Asíu. Í ávarpinu kom fram að jöklar þriðja pólsins væru á undanhaldi vegna loftslagsbreytinga af mannavöldum, eins og jöklar og ís um allan heim.
Sagði Guðlaugur Þór stóran hluta mannkyns treysta á jökla Himalajafjalla fyrir vatnsbúskap sinn. Bráðnun jökla þar, líkt og breytingar á freðhvolfinu öllu, séu hins vegar ein sýnilegustu merki hlýnunar jarðar og slíkt ætti að skerpa huga jarðarbúa til að takast á við það verkefni að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.
Á málstofu Veðurstofu Íslands og Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar, A Message on the Cryosphere, munu sérfræðingar á sviði freðhvolfsins (e. cryosphere) kynna lykilniðurstöður alþjóðlegrar ráðstefnu um freðhvolfið, Cryosphere 2022, sem haldin var í Reykjavík í ágúst á þessu ári. Rannsóknir hafa sýnt að hlýnun jarðar hefur haft víðtæk áhrif á jökla um alla jörð og hinar stóru ísbreiður Grænlands og Suðurskautslandsins leggja sífellt meira til hækkunar heimshafanna. Snjóa leysir fyrr að vori á norðurslóðum, bráðnun sífrera í fjöllum leiðir til aukinnar skriðuhættu og útbreiðsla hafíss fer minnkandi á Norðurhöfum. Allt hefur þetta gríðarlegar afleiðingar fyrir samfélög á þessum svæðum og munu pallborðsumræður viðburðarins beinast að því hverjar þær eru og hvernig takast skal á við þær.
Viðburðurinn er svokallaður hliðarviðburður á COP27 og fer hann fram í Cryosphere Pavilion í Egyptalandi auk þess sem honum verður streymt í beinni á Facebooksíðu Veðurstofunnar . Viðburðurinn fer fram þann 16. nóvember, kl. 14-15.30 að íslenskum tíma.