Hvað táknar gul viðvörun?
Veðurfræðingar vinna út frá áhrifum veðurs og líkum á því að veðrið skelli á
Gefin hefur verið út gul
viðvörun fyrir allt landið sem tekur gildi á aðfaranótt föstudags og gildir til
kl. 21 á föstudagskvöld. Þetta er sérlega djúp og áköf lægð sem nálgast landið
úr suðvestri. Líkur eru á að áhrif veðursins verði umtalsverð. En hvers vegna
er viðvörunin „bara“ gul? Jú, við notum gula litinn einnig til að vara við
veðri lengra fram í tímann, 3-5 daga. Í skýringartextanum
fyrir gula viðvörun segir: „Gul viðvörun getur einnig gefið til kynna að
litlar eða miðlungs líkur séu á mjög áhrifamiklu veðri 3-5 daga fram í tímann.“
Þetta á einmitt við veðrið sem er í vændum. Þegar nær dregur og líkurnar á því spáin gangi eftir aukast hækkar viðvörunarstigið upp á
appelsínugult. Þetta er útskýrt í því sem við köllum „Áhrifafylkið“. Þar er horft
á „líkur“ og „áhrif“. Viðvörunarlitur ákvarðast þannig af mati sérfræðinga á
áhrifum væntanlegs veðurs og líkum á því að spáin gangi eftir.
Þetta dæmi sýnir að það er mikilvægt að átta sig á því að gul viðvörun 3-5 daga fram í tímann táknar ekki endilega hversu slæmt veður er í vændum.
Nánar um viðvörunarkerfi Veðurstofunnar.