Fréttir
Gefin hefur verið út gul viðvörun fyrir allt landið sem tekur gildi á aðfaranótt föstudags og gildir til kl. 21 á föstudagskvöld

Hvað táknar gul viðvörun?

Veðurfræðingar vinna út frá áhrifum veðurs og líkum á því að veðrið skelli á

11.2.2020

Gefin hefur verið út gul viðvörun fyrir allt landið sem tekur gildi á aðfaranótt föstudags og gildir til kl. 21 á föstudagskvöld. Þetta er sérlega djúp og áköf lægð sem nálgast landið úr suðvestri. Líkur eru á að áhrif veðursins verði umtalsverð. En hvers vegna er viðvörunin „bara“ gul? Jú, við notum gula litinn einnig til að vara við veðri lengra fram í tímann, 3-5 daga.  Í skýringartextanum fyrir gula viðvörun segir: „Gul viðvörun getur einnig gefið til kynna að litlar eða miðlungs líkur séu á mjög áhrifamiklu veðri 3-5 daga fram í tímann.“ Þetta á einmitt við veðrið sem er í vændum. Þegar nær dregur og líkurnar á því spáin gangi eftir aukast hækkar  viðvörunarstigið upp á appelsínugult. Þetta er útskýrt í því sem við köllum „Áhrifafylkið“. Þar er horft á „líkur“ og „áhrif“. Viðvörunarlitur ákvarðast þannig af mati sérfræðinga á áhrifum væntanlegs veðurs og líkum á því að spáin gangi eftir.

CAP_Matrix

Miðað við hvernig spárnar fyrir föstudag líta út í dag, þriðjudag, er staðsetning viðvörunar í áhrifafylkinu í þeim kassa sem hakað er við á myndinni. Segjum sem svo að spárnar breytist ekki hvað varðar ákefðina í veðrinu. Líkurnar á því að spáin gangi eftir aukast hins vegar eftir því sem nær dregur föstudeginum og því myndi viðvörunin færast lóðrétt upp líkindaásinn og fá þannig appelsínugulan lit.


Þetta dæmi sýnir að það er mikilvægt að átta sig á því að gul viðvörun 3-5 daga fram í tímann táknar ekki endilega hversu slæmt veður er í vændum.

Nánar um viðvörunarkerfi Veðurstofunnar.




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica