Fréttir
Hraun streymir úr Geldingadölum niður í Nátthaga 13. júní.

Hraunflæðilíkön hafa sannað sig í eldgosinu við Fagradalsfjall

Samstarfsverkefni Veðurstofunnar og Háskólans um frekari þróun hraunflæðilíkana

22.6.2021

Eldgosið sem hófst í Geldingadölum 19. mars hefur nú staðið viðstöðulaust í nær þrjá mánuði. Á þeim tíma hefur gosið skipt um takt nokkrum sinnum.  Nýir gígar opnast og lokast, hraunrennslið aukist og samsetningu þess breyst. Eldgosið hefur verið talsverð áskorun fyrir vísindamenn ekki síst þegar kemur að því að spá fyrir um farveg og hegðun hraunflæðis frá eldstöðvunum.

Veðurstofan og Háskóli Íslands hafa verið í samstarfi um notkun og þróun hraunflæðilíkana í verkefni sem styrkt er af Rannsóknarsjóði á vegum RANNÍS. Hraunflæðilíkön voru fyrst notuð í gosinu í Holuhrauni fyrir um sex árum síðan, en það er fyrst núna í eldgosinu við Fagradalsfjall sem veruleg þróun hefur átt sér stað í notkun þeirra hér á landi.

“Við teljum að í eldgosinu við Fagradalsfjall hafi hraunflæðilíkön virkilega náð að sanna sig”, segir Sara Barsotti, fagstjóri eldfjallavár á Veðurstofu Íslands. “Líkönin hafa nýst viðbragðsaðilum við að meta hvaða innviðir eru mögulega í hættu vegna hraunflæðis sem og að stýra umferð og bæta öryggi fólks við eldstöðvarnar. Þannig að við teljum að þessi líkön hafi komið að góðum notum”, segir Sara.

Það er óljóst hversu lengi eldgosið mun standa, en mikilvægt að reyna að spá fyrir um mögulegar hættur og tjón á innviðum eftir því hver framvindan verður. Nú beinist athyglin að Nátthaga suður af gosstöðvunum og áhrif hraunflæðis þaðan á Suðurstrandarveg og svæðið niður að sjó.

Unnið að frekari þróun hraunflæðilíkana

„Þegar kemur að því að spá fyrir um hvernig náttúruöflin haga sér þá er alltaf talsverð óvissa í spilunum og það er eins með hraunflæðilíkönum“ segir Dr. Gro Birkefeldt Möller Pedersen, rannsóknasérfræðingur hjá Háskóla Íslands, en hún hefur leitt þetta samvinnuverkefni milli háskólans og Veðurstofunnar. „Jafnvel þó svo að hraunflæði mælist stöðugt frá eldstöðinni þarf að taka tilliti til óreglulegs flæðis og sífeldra breytinga á farvegum hraunsins sem sumir eru liggja nú undir hraunhellunni á nokkrum stöðujm. Allt þetta skapar ákveðna óvissu í niðurstöðunni“, segir Gro. Þegar reyna á að spá fyrir um hvort og þá hvenær hraun geti mögulega flætt yfir Suðurstrandaveg og síðan niður að sjó, bætist við óvissa um hversu lengi það tekur fyrir svæðið í Nátthaga að fyllast áður en hraun fer að flæða niður úr dalnum. „Við höfum sett upp tvær sviðsmyndir, „minni“ og „stærri“, fyrir mögulegt hraunflæði úr Nátthaga, þar sem gert er ráð fyrir mismiklu magni af hrauni“, segir Gro. „Stærri sviðsmyndin sýnir mögulega stöðu á hraunbreiðunni í sumar eða byrjun hausts, að öllu óbreyttu en síðan er alltaf þessi óvissa um hvenær hraun byrjar að flæða suður úr Nátthaga“, segir Gro.


(Smelltu á myndina til að sjá hana stærri). Líkanið sýnir tvær sviðsmyndir af mögulegu hraunflæði suður úr Nátthaga. Sviðsmyndirnar gera ráð fyrir hraunflæði upp á 3.1 milljón m3 annars vegar og 29 milljón m3 hinsvegar. Talsverð óvissa ríkir um hversu lengi það tekur fyrir svæðið í Nátthaga að fyllast áður en hraun fer að flæða niður úr dalnum. (Líkan: Veðurstofan/Háskóli Íslands/Gro Birkefeldt Möller Pedersen)

„Þegar kemur að hraunflæði er ef til vill ekki eins mikilvægt að svara spurningunni um hvenær hraun nái ákveðinni útbreiðslu eins og hver mögulegur farvegur hraunsins verði“ segir Sara. „Í því samhengi teljum við að hraunflæðilíkön geti áfram nýst okkur vel við gerð viðbragðsáætlanna“.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica