Fréttir
Grimsvotn-22-jan-2024
Kortið sýnir Grímsvötn og staðsetningu sigkatlanna SA við Grímsfjall. 22. janúar 2024.

Grímsvatnahlaupi að ljúka

Sigketill hefur myndast SA við Grímsfjall

22.1.2024

Uppfært 22. janúar kl: 15:45

Frá því að hlaupið náði hámarki í Gígjukvísl fyrir um það bil viku hefur vatnshæð þar farið lækkandi og er nú orðin svipuð og hún var fyrir hlaup. Hlaupórói sem mældist á jarðskjálftamæli á Grímsfjalli hefur líka lækkað og er nú kominn niður í eðlilegt horf. Frá því á mánudaginn í síðustu viku hefur 21 jarðskjálfti mælst í Grímsvötnum, þar af tveir skjálftar yfir tveimur að stærð.

Í Grímsvatnahlaupinu 2021 myndaðist sigketill (GV-33), sem er sprungin dæld á yfirborði jökulsins, SA af Grímsfjalli. Ketillinn er staðsettur nærri farvegi hlaupanna undir jöklinum.. Starfsmenn Veðurstofunnar, sem voru á ferð á Vatnajökli í síðustu viku að sinna mælarekstri, sáu móta fyrir sigkatli á svipuðum stað. Við skoðun á gervitunglamyndum frá því í gær, 21. Janúar, sjást tveir sigkatlar SA af Grímsfjalli. Annar þeirra er sá sem myndaðist í hlaupinu 2021 en hinn gæti hafa myndast í nýafstöðnu hlaupi eða verið eldri ketill sem hefur virkjast aftur. Sigkatlarnir eru nærri ferðaleið austur af Grímsfjalli og æskilegt að forðast ketillinn á ferð um þær slóðir. 

Hnit fyrir staðsetningu sigkatlanna eru eftirfarandi:

  • Sigketill GV-33: 64°23,611' og -17°13,017' (baughnit, WGS-84)
  • Nýr sigketill: 64°23,766' og -17°12,729' (baughnit, WGS-84)

Þegar jökulhlaupið hófst var fluglitakóði fyrir eldstöðina færður upp á gult vegna þess að auknar líkur voru á eldgosi í kjölfar þrýstiléttis eftir að vatn flæddi úr Grímsvötnum. Þar sem jökulhlaupinu er lokið og engar skammtíma breytingar í virkni hafa mælst verður fluglitakóðinn aftur færður niður á grænt.  

Til lengri tíma litið hefur virkni í Grímsvötnum verið þó nokkur og síðustu fimm mánuði hefur fjöldi jarðskjálfta verið yfir þeim fjölda sem telst eðlileg bakgrunnsvirkni. Ef til eldgoss kæmi í Grímsvötnum er gert ráð fyrir því að ákafrar aukningar í smáskjálftavirkni yrði vart áður en gos hæfist. Vísindamenn Veðurstofunnar og Jarðvísindastofnunar munu áfram fylgjast mjög náið með Grímsvötnum og miðla upplýsingum ef virkni eykst frekar. 

Grimsvotn-22-jan-2024

Kortið sýnir Grímsvötn og staðsetningu sigkatlanna SA við GrímsfjallUppfært 15. janúar kl: 15:40

Vatnshæð í Gígjukvísl hefur verið nokkuð stöðug frá því í nótt sem bendir til þess að rennsli í ánni sé í hámarki. Búast má við að rennsli fari hægt minnkandi næstu daga þar til hlaupinu lýkur. Frá miðnætti 15. janúar hefur jarðskjálftamælirinn á Grímsfjalli sýnt aukinn hátíðnióróa, en hann er talinn tengjast suðu í jarðhitakerfinu í Grímsvötnum sem gjarnan kemur fram í lok jökulhlaupa. Sambærilegur órói hefur mælst í síðustu Grímsvatnahlaupum sem ekki hafa hleypt af stað eldgosi. Ef til eldgoss kæmi í Grímsvötnum er gert ráð fyrir því að ákafrar aukningar í smáskjálftavirkni yrði vart áður en gos hæfist.  Lítil jarðskjálftavirkni hefur verið í Grímsvötnum í dag og um helgina, en frá því á föstudag hafa átta jarðskjálftar mælst þar, allir undir 2.0 að stærð.

Veðurstofan mun ásamt vísindamönnum Jarðvísindastofnunar Háskólans halda áfram að fylgjast náið með Grímsvötnum.

15-jan-2024-

Grafið sýnir vatnshæði í Gígjukvísl síðustu 7 daga, en þar sést að vatnshæðin hefur verið nokkuð stöðug frá því á miðnætti.

Uppfært 14. janúar kl: 14:10

Jökulhlaupið úr Grímsvötnum náði hámarki seint í gærkvöldi eða nótt miðað við hlaupóróa sem hefur farið lækkandi síðan þá. Rennsli og rafleiðni í Gígjukvísl heldur áfram að vaxa en búast má við að hlaupið nái hámarki í ánni um 1-2 sólahringum seinna en í Grímsvötnum. Lítil skjálftavirkni hefur verið á svæðinu en einn smáskjálfti mældist í morgun.

Veðurstofan mun ásamt vísindamönnum Jarðvísindastofnunar Háskólans halda áfram að fylgjast náið með Grímsvötnum.

14-jan-hlauporoi-grimsvotn

Mynd 1: Gögn úr vatnshæðarmæli á brúnni yfir Gígjukvísl sem sýna gögn síðustu 7 daga.

Uppfært 12. janúar kl: 10:00

Á síðustu tveimur sólarhringum hefur vatnsmagn í Gígjukvísl aukist jafnt og þétt. Það sést á því að áin dreifir úr sér í farvegi sínum og vatnshæðarmælir á brúnni á þjóðvegi 1 sýnir að vatnsyfirborðið undir henni hefur risið um rúma 70 cm á tveimur sólarhringum. Rafleiðni í ánni er einnig byrjuð að hækka lítillega en það eru merki um aukið magn hlaupvatns í ánni. Engin skjálftavirkni hefur mælst í Grímsvötnum eða hlaupfarveginum undir Skeiðarárjökli síðan seinnipartinn í gær. Hlaupórói vex stöðugt á skjálftamælinum á Grímsfjalli, sem bendir til þess að rennsli sé enn að aukast úr Vötnunum. Áfram er gert ráð fyrir því að jökulhlaupið nái hámarki í Grímsvötnum um eða fljótlega eftir helgina og í Gígjukvísl 1-2 sólarhringum síðar.

Veðurstofan mun ásamt vísindamönnum Jarðvísindastofnunar Háskólans halda áfram að fylgjast náið með Grímsvötnum en næst er gert ráð fyrir fréttauppfærslu á mánudaginn 15. janúar nema virkni breytist um helgina. Náttúruvakt Veðurstofunnar vaktar svæðið allan sólahringinn og mun senda út tilkynningar fyrr ef þörf er á.

12-jan-mynd-1

Mynd 1: Gögn úr vatnshæðarmæli á brúnni yfir Gígjukvísl sem sýna gögn síðustu 7 daga.

12-jan-mynd-2

Mynd 2: Óróagraf frá jarðskjálftamælingum á Grímsfjalli. Grafið sýnir gögn á þremur mismunandi tíðnibilum, hvert í sínum lit. Þetta graf hjálpar vísindamönnum við að greina hver uppruni órans er. Bláa línan sýnir hvernig hlaupórói hefur vaxið jafnt og þétt síðustu daga.


Frétt birt 11. janúar kl: 13:00

Í morgun kl. 06:53 mældist jarðskjálfti af stærð 4,3 í Grímsvötnum. Það er stærsti skjálfti í Grímsvötnum frá upphafi mælinga (1991). Síðustu daga hefur hægt vaxandi hlaupórói mælst á Grímsfjalli og síðan í gær hefur vatnsmagn í Gígjukvísl farið vaxandi. Jökulhlaup er því hafið úr Grímsvötnum. Líklegt er að jarðskjálftinn í morgun sé vegna þrýstingsléttis í kjölfar upphafs jökulhlaupsins.

Síðast varð hlaup úr Grímsvötnum í október 2022 og þar áður í kringum mánaðamót nóvember og desember 2021. Skv. mælingum Jarðvísindastofnunar er vatnsmagn í Grímsvötnum nú talið vera um 0,29 km3 sem er helmingi (50%) meira en fyrir hlaupið 2022 en tæpur þriðjungur vatnsmagns fyrir hlaup í lok árs 2021.

Ekki næst samband við GPS tæki Jarðvísindastofnunar á íshellunni í Grímsvötnum og torveldar það mat á því hversu ört vatnið rennur úr Vötnunum og niður farveginn undir Skeiðarárjökli. Ef miðað er við að atburðarás í þessu hlaupi verði svipuð og í síðustu tveimur hlaupum má gera ráð fyrir að hámarksrennsli úr Grímsvötnum verði um eða fljótlega eftir komandi helgi. Hámarksrennsli  í Gígjukvísl við Þjóðveg 1 næst svo um 1-2 sólarhringum seinna. Miðað við það vatnsmagn sem safnast hefur í Grímsvötnum er líklegt að hámarksrennsli verði ekki umfram 1.000 m3/s. Búast má við að hámarksrennsli í Gígjukvísl við þjóðveg 1 verði svipað og hámarksrennsli úr Grímsvötnum. Hlaupið ætti því ekki hafa nein áhrif á mannvirki s.s. vegi og brýr.

Dæmi eru um að eldgos verði í Grímsvötnum eftir að vatn hleypur þaðan. Talið er að skyndilegur þrýstiléttir vegna lækkandi vatnsborðs hleypi af stað gosum. Síðast varð atburðarásin slík árið 2004 og þar áður 1934 og 1922. Mun oftar hefur þó hlaupið úr Grímsvötnum án þess að til eldgoss kæmi, og hafa 12 hlaup komið frá Grímsvötnum eftir 2004 án þess að eldgos hafi fylgt í kjölfarið. Síðast varð eldgos í Grímsvötnum árið 2011, en það var ekki í tengslum við jökulhlaup þaðan.

Vegna jökulhlaupsins og aukinnar skjálftavirkni verður fluglitakóði fyrir eldstöðina færður á gulan lit, í samræmi við það að eldstöðin sýnir merki um virkni umfram venjulegt ástand.

Hér eru myndir úr vefmyndavél á brúnni yfir Gígjukvísl. Efri myndin er tekin að morgni 9. janúar og sjást sandeyrar ofan yfirborðs t.h. Þær eru alveg horfnar undir vatn á síðari myndinni, sem tekin er fyrir hádegi 11. janúar.

Vefmyndavel-numer-1

Vefmyndavel-numer-2

Grimsvotn-mynd

Kort af áætlaðri hlaupleið úr Grímsvötnum niður í Gígjukvísl á Skeiðarársandi.Veðurstofan mun ásamt vísindamönnum Jarðvísindastofnunar Háskólans halda áfram að vakta Grímsvötn og verða reglulega birtar upplýsingar um þróun atburðarásarinnar.

Nánari upplýsingar um Grímsvötn má nálgast í Íslensku Eldfjallavefsjánni.

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica