Fréttir
hitaskekkjur
Sjávarhiti og yfirborðshiti.

Hitaskekkjur í veðurspá

15.11.2016

Veðurlíkön herma eðlisfræði lofthjúpsins og reikna veðurspá sem byggir á upplýsingum um upphafsástand lofthjúpsins. Þessi upphafsgildi, sem kölluð eru veðurgreining, eru unnin úr mælingum á ástandi lofthjúpsins og spáreikningum. Mælingarnar eru margvíslegar, til dæmis mælingar við yfirborð, í háloftum og fjarkönnun með veðurtunglum. Útreikningar veðurlíkans Veðurstofu Íslands, HARMONIE byggjast á upphafsgildum frá greiningu Reiknimiðstöðvar evrópskra veðurstofa (ECMWF).

Nýlega gerði villa vart við sig í greiningu ECMWF. Villan er í yfirborðshita sjávar á flóum og fjörðum á vestan- og norðvestanverðu landinu, sem ranglega er greindur of lágur og lagnaðarís því myndaður á svæðinu. Af þeim völdum er spá um hita við yfirborð óeðlilega lág, sem og um lofthita. Þetta hefur keðjuverkandi áhrif á spárnar. Myndin hér fyrir ofan sýnir yfirborðshita sjávar (°C) í greiningu Reiknimiðstöðvarinnar á miðnætti 15. nóvember 2016. Greinilegt er að yfirborðshitinn er allt of lágur á flóum og fjörðum á vestan- og norðvestanverðu landinu, eða undir frostmarki.

Þessi skekkja hefur áhrif á allar tölvuspár sem byggja á greiningunni, þar með talið á útreikninga HARMONIE, fyrstu 66 tímana frá því spá er gerð og á langtímaspána 3-5 daga fram í tímann sem byggir á spálíkani ECMWF. Þetta þýðir að í sumum tilvikum er spáð óeðlilega lágum hita á þessum svæðum, einkum við sjávarsíðuna. Villan er mismikil eftir veðuraðstæðum, frá örfáum stigum að 7-9 stigum. Að auki geta spár um úrkomutegund verið rangar, hlutur snævar í úrkomu meiri en eðlilegt er..

harmonie-likan

36 klukkustunda hitaspá úr HARMONIE með gildistíma 16. nóvember kl. 18:00. Spáð er hita sem er óeðlilega lágur á flóum og fjörðum á vestan- og norðvestanverðu landinu, eða undir frostmarki. Ljóst er að þessi villa hefur áhrif á hitaspá við sjávarsíðuna.

Unnið er að því að komast fyrir þessa villu hjá ECMWF og gert ráð fyrir hún verði löguð í uppfærslu spákerfis þeirra 22. nóvember næstkomandi.

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica