Fréttir
Mynd tekin af hlíðinni í desember 2020 og sýnir það svæði sem nú er á hreyfingu.

Hættustigi lýst yfir á Seyðisfirði vegna hættu á skriðuföllum

5.10.2021

Uppfært 5.10. kl 17:20

Ofanflóðavakt Veðurstofunnar hefur fylgst náið með þróun mála á Seyðisfirði síðasta sólarhringinn. Ennþá mælist hreyfing á fleka utan í stóra skriðusárinu. Engin úrkoma hefur verið á svæðinu síðasta sólarhringinn og dregið hefur úr hækkun á vatnshæði í borholum. Þess vegna er talið að þrýstingur hafi minnkað á jarðlög í hlíðinni. Í lok vikunnar er von á talsverðri úrkomu á svæðinu og í ljósi þessa ákvað lögreglurstjóri Austurlands í samvinnu við Almannavarnir að viðhalda rýmingu á níu húsum sem rýmd voru í gær.

Uppfært 4.10.

Ríkislögreglustjóri í samráði við Lögreglustjórann á Austurlandi hefur ákveðið að lýsa yfir hættustigi almannavarna á Seyðisfirði vegna hættu á skriðuföllum. Í kjölfar mikillar úrkomu undanfarna daga fóru mælitæki Veðurstofunnar, sem vakta hlíðina ofan Seyðisfjarðar,  að sýna að stór fleki í jaðri skriðusársins við Búðará væri kominn á hreyfingu. Um er að ræða 2-3.000m2 fleka sem fallið gæti fallið í Búðará og er í innri hluta farvegar stóru skriðunnar frá 2020. Mælitækin gefa einnig til kynna að hreyfing flekans hefur aukist nú í morgun. Í ljósi þessa mælti ofanflóðavakt með rýmingu níu húsa.


Mynd sem sýnir það svæði í hlíðinni sem er á hreyfingu. Um er að ræða 2-3000m2 fleka sem fallið gæti fallið í Búðará og er í innri hluta farvegar stóru skriðunnar frá 2020. Myndin er tekin í desember 2020. (Ljósmynd: Sérsveit ríkislögreglustjóra)

„Við sjáum að rigningin síðustu daga hefur haft áhrif á stöðuleikann á þessum fleka sem er í jaðri annars skriðusársins sem hljóp úr í fyrra, en að öðru leyti virðist hlíðin vera stöðug. Fylgst verður áfram vel með aðstæðum og þeim gögnum sem berast frá mælitækjunum“, segir Esther Hlíðar Jensen, sérfræðingur á ofanflóðavakt Veðurstofunnar.

Hreyfingin sést bæði með radarmælingum en einnig með mælingum á speglum með alstöð en ekki eru sjáanlegar hreyfingar annarsstaðar í hlíðinni. Ofanflóðavakt Veðurstofunnar fylgist áfram náið með þróun mála.


Mynd sem sýnir bylgjuvíxlmælingu með radar (e. InSar). Innan hvíta hringsins sést svæðið sem er á hreyfingu. Litakvarðinn táknar hversu mikil hreyfing er á yfirborðinu sem tækið nemur. Myndin sýnir breytingu sem hefur átt sér stað frá því 2. október. Svæðið hægra megin við hvíta hringinn er á mörkum mælisviðs tækisins og rauði liturinn á hömrunum því talinn vera truflun í mælingu. Mælingar úr GPS og alstöð benda til þess að það séu engar hreyfingar þar á ferðinni en speglamælingar í stóru skriðunni og gögn úr bylgjuvíxl tækinu bera saman, en mynd af tækinu sést hér að neðan.

Leica_Bjarki---Copy

Meðal þess búnaðar sem fest var kaup til að vakta hlíðina ofan Seyðisfjarðar er sjálfvirk alstöð sem sett hefur verið upp norðan fjarðar, en slíkur búnaður skýtur geisla í spegla sem komið var fyrir í Neðri-Botnum og Botnabrún og nemur hreyfingu á þeim. (Ljósmynd: Veðurstofan / Bjarki Borgþórsson)

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica